„Þar skiptir borgarlínan gríðarlega miklu máli“

Andrés Ingi Jónsson segir almenningssamgöngur einnig vera loftlagsmál.
Andrés Ingi Jónsson segir almenningssamgöngur einnig vera loftlagsmál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratar eru ánægðir með að uppfærður samgöngusáttmáli sé kominn í höfn. Þó hefði verið ennþá betra ef málið hefði klárast á síðasta þingvetri svo hægt væri að skoða uppfærsluna með tilliti til umfjöllunar um samgönguáætlun og fjármálaáætlun.

Þetta segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.

Hann segir að samgönguumbætur hafi verið orðnar tímabærar á höfuðborgarsvæðinu.

„Mér finnst kannski sérstaklega muna um samgöngurnar sem eru þarna. Borgarlínan mun stökkbreyta því hvernig almenningssamgöngur virka og göngu- og hjólastígar sem við sjáum strax hvað þeir geta breytt miklu hvaða varðar samgöngumynstrið á svæðinu.“

Hefði viljað sjá ákveðnar framkvæmdir fyrr

Andrés nefnir að hann hefði verið til í að sjá ákveðnar framkvæmdir fyrr á áætlun og þá sérstaklega þær sem varða borgarlínuna. Hann segir að fjármálaáætlun sem afgreidd var í vor valdi því að verklokum á borgarlínunni seinki miðað við það sem upphaflega var lagt upp með.

„Það er eitthvað sem við þurfum að skoða inn á þingi næsta vetur, hvernig sú þróun rímar við markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Af því að stærstu sóknarfærin í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu eru samgöngur. Þar skiptir borgarlínan gríðarlega miklu máli,“ segir hann.

Eðlilegt að áætlunin kosti miklar upphæðir

Áætlaður kostnaður við sam­göngusátt­mál­ann, sem nú er 311 millj­arðar, er umtalsvert meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í fyrra, en þá var áætlaður kostnaður um 170 millj­arðar. Spurður hvort að honum finnist þetta vera óheppilegt segir Andrés:

„Ég held að það sé slæmt að við lendum í svona neikvæðri umræðu um svona stórar framkvæmdir, einmitt þegar tölurnar breytast á milli ára. En hins vegar er það staðreynd að við erum að tala um allt samgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu þar sem 2/3 þjóðarinnar búa og það er kannski eðlilegt að þar kosti hlutirnir dálítið mikið,“ segir hann.

Skemmtilegt að ríkið taki þátt í rekstrarkostnaði

Hann tekur fram að honum finnist „sérstaklega skemmtilegt“ að ekki sé nálgast verkefnið sem aðeins framkvæmdir, heldur líka að ríkið muni taka þátt í rekstrarkostnaðinum. 

Nefnir hann í því samhengi að sett verði á lagg­irn­ar sam­eig­in­legt rekstrarfélag fyr­ir rekst­ur almenningssamgangna á höfuðborg­ar­svæðinu, en ríkið mun fjár­magna rekst­ur þess um þriðjung meðan sveit­ar­fé­lög­in sex munu greiða tvo þriðju hluta rekst­urs­ins.

„Það endurspeglar að í þéttbýlinu, sem höfuðborgarsvæðið er, þá skiptir ekki bara máli að vera með malbik undir farartækinu heldur skiptir máli að það sé sameiginleg ábyrgð bæði ríkis og sveitarfélaga að almenningssamgöngurnar séu reknar af myndugleik,“ segir Andrés.

Slíkar deilur engum í hag

Spurður hvort að sé sanngjarnt gagnvart skattgreiðendum utan höfuðborgarsvæðisins að skattfé þeirra fari í sjálfan reksturinn segir Andrés að reglulega sé varið ólíkum upphæðum í ólík verkefni eftir því hvar fólk er búsett.

„Við þekkjum það hvernig umræðan verður stundum um háan kostnað við jarðgöng sem þjóna litlum sveitarfélögum en eru ofboðslega mikilvæg samgöngubót fyrir þau sveitarfélög. Ég held að þær deilur séu ekki neinum í hag.

Það sem við þurfum um allt land er samgöngukerfi sem virkar fyrir þær aðstæður sem eru á hverjum stað. Og það sem vantar á höfuðborgarsvæðinu svo að samgöngur virki eru almenningssamgöngur sem bera mikinn fjölda á hárri tíðni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert