Vegir torfærir vegna mikillar snjókomu við Öskju

Vegur frá Drekagili upp í Öskju er torfær. Skyggni er …
Vegur frá Drekagili upp í Öskju er torfær. Skyggni er slæmt og mikil hálka er á veginum. Facebook/Gígur gestastofa

Mikil snjókoma á norðanverðu hálendinu hefur gert veginn frá Drekagili upp í Öskju afar torfæran. Lélegt skyggni er á svæðinu og mikil hálka. „Þetta er erfiður snjór,“ segir þjóðgarðsvörður. Bíll eyðilagðist í gær þegar hann rann út af vegi vegna hálku.

Útlit er fyrir snjókomu, vind og lélegt skyggni á svæðinu næstu tvo daga.

„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við sjáum snjó [um sumartímann]. Við getum alveg fengið snjókomu í júlí,“ segir Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður á norðurhálendi Vatnajökulsþjóðgarðs, í samtali við mbl.is.

„Það sem er ólíkt þessu nú er að núna er snjór og það á að vera kalt næstu daga og úrkoma næsta einn og hálfan sólarhringinn.“

Snjór þekur aftur á móti ekki allt svæðið að sögn Önnu, en þegar komið er í kílómeters hæð er snjólagið þykkt.

„Við vorum smá hrædd við að veturinn væri kominn, en …
„Við vorum smá hrædd við að veturinn væri kominn, en sem betur held ég að það sé ekki alveg þannig. Við fáum alla veganna smá haust... þó svo að það sé eiginlega búið að vera haust í allt sumar,“ segir Anna. Facebook/ Gígur gestastofa

Snúa gestum við sem ekki eru á stærri bílum

Anna segir að vegurinn sé ófær nema ökumenn séu á breyttum bílum. „Og ekki einu sinni á breyttum bílum, því að við vorum að lenda í vandræðum. Þetta er erfiður snjór, þetta er blautur snjór,“ bætir Anna við en einn landvörður festi bílinn í dag í snjónum, þá á 35 tommu dekkjum.

Á Facebook-síðu Gígs gestastofu í Mývatnssveit er mælt gegn því að ökumenn á smærri bifreiðum aki veginn. Hann sé ekki „jepplingafær“. Einnig hafi snjó fest á aðra vegi, m.a. Gæsavatnaleið, Dyngjufjallaleið og veginn um Dyngjufjalladal.

Landverðir reyna nú að fyrirbyggja að fólk ferðist að Öskju, þar sem fjórir þeirra standa við vegi og vísa gestum frá svæðinu. Sem betur fer hefur lítil umferð verið um veginn, segir þjóðgarðsvörðurinn.

Veðurútlit næstu tvo daga er ekki gott og er snjókoma, vindur og lélegt skyggni á svæðinu.

„Við erum með landverði svolítið neðarlega að vegunum sem liggja að, sem tala við alla gesti sem koma inn,“ segir Anna.

„Það er heldur ekkert varið að fara inn í Öskju. Það er snjókoma og slydda. Og þetta er langur akstur.“

Rann út af veginum

Snjókoman hófst í raun í upphafi viku en í gær sótti hún í sig verðið.

Einn bíll rann út af veginum í gærkvöldi vegna hálku og hafnaði úti í hrauni. Engan sakaði en bíllinn er mikið skemmdur að sögn Önnu. „Það er helsta óhappið sem er búið að vera. Vonandi verða þau ekki fleiri.“

Á morgun og laugardag er búist við því að vegir inn að Öskjuvatni verði ófærir öllum bílum.

„Vonandi verður þetta betra og í lagi á morgun en ég held því miður að við þurfum að bíða fram á sunnudag.“

Eiginlega búið að vera haust í allt sumar

Anna segir að óvenjulítið hafi verið um sumarhret við Öskju í ár. Þó hafi mikil snjókoma gert vart við sig í júlí.

„Munurinn núna er að þegar við fáum þetta yfir sumartímann þá er þetta kannski einn dagur eða eitthvað en núna erum við að horfa fram á smá tíma, alla veganna tvo sólarhringa,“ segir hún.

„En svo koma hlýindi í næstu viku. Við vorum smá hrædd við að veturinn væri kominn, en sem betur held ég að það sé ekki alveg þannig. Við fáum alla veganna smá haust,“ segir hún enn fremur og bæti við að lokum:

„Þó svo að það sé eiginlega búið að vera haust í allt sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert