Viðbúnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag á Snorrabraut þar sem karlmaður var handtekinn tengist atburði í Neskaupstað þegar tveir fundust látnir í heimahúsi.
Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, aðstoðarlögreglustjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði leit staðið yfir að manninum fyrir lögregluna á Austurlandi og sást til ferða bíls sem talið var að maðurinn hefði ekið í austurbæ Reykjavíkur. Honum var fylgt eftir og var maðurinn handtekinn.
Lögreglubílar voru settir á lykilstaði í borginni. „Okkur fannst líkur á að viðkomandi væri kominn til Reykjavíkur og við settum net af lögreglubílum til að athuga hvort hann myndi keyra þar framhjá og það gerðist. Honum var fylgt eftir og hann handtekinn,” greinir Ásgeir Þór frá.
Maðurinn var handtekinn á Snorrabraut við Eiríksgötu og tók lögregluaðgerðin um einn og hálfan til tvo klukkutíma. Spurður segist Ásgeir Þór ekki geta svarað því hvort maðurinn hafi verið vopnaður og vísar á lögregluna á Austurlandi.