„Við ættum að vera varin“

Eldgosið hófst nú á níunda tímanum.
Eldgosið hófst nú á níunda tímanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir orkuinnviði fyrirtækisins ekki í bráðri hættu eins og er. Fyrirtækið fylgist þó vel með því hvernig gosið þróist og hraunflæðið verður.

„Það er enn verið að meta gosið og sprunguna,“ segir Tómas í samtali við mbl.is. „En nei, það er ekkert enn í bráðri hættu,“ bætir hann við.

Hann segir gosið virðast vera á sömu sprungu og fyrri gos og fyrir utan varnargarðana við Svartsengi.

Enginn starfsmaður fyrirtækisins er á staðnum, né heldur verktakar á þess vegum. Starfsemi HS Orku hefur um nokkurt skeið verið stýrt frá Reykjanesvirkjun.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. Ljósmynd/Aðsend

Varnargarðurinn 20 metrar á hæð

Tómas segir að búið sé að hækka varnargarðinn verulega og að hæð hann sé nú yfir 20 metrar. Þá veiti síðasta hraun líklega einhverja vernd.

Heitavatnsæðin fyrir Reykjanesbæ liggur nokkuð vestar þangað sem hraun getur runnið, nú þegar ljóst er að það er að renna norður fyrir Sýlingarfell. Tómas segir hins vegar að lögninni hafi verið sökkt í jörðina á 750 metra kafla þar sem landið er lægst. Auk þess hafi Landsnet líka hækkað raforkulínur sínar á svæðinu. „Við ættum að vera varin,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert