14.300 hlauparar skráðir í Reykjavíkurmaraþonið

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á morgun.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2024 fer fram á morgun, en alls eru 14.300 hlauparar skráðir til leiks. Uppselt er í bæði hálft maraþon og 10 km hlaup, og aðeins örfáir miðar eru eftir í heilt maraþon. 

„Við erum að sprengja alla skala,“ segir Selma Smáradóttir, verkefnastjóri hjá Íslandsbanka. Fólk getur sótt hlaupanúmer hjá Fit & Run Expo til klukkan 19 í kvöld.

Talsvert fleiri eru skráðir í ár en í fyrra, en þá voru 11 þúsund skráðir í hlaupið. Samtals eru því 30% fleiri skráðir í ár.

Margar mikilvægar sögur 

Undirbúningur hefur gengið ótrúlega vel að sögn Selmu, og segir hún söfnunina í tengslum við maraþonið hafa farið fram úr öllum væntingum.

„Það er ótrúlega magnað að sjá hversu margir eru að styrkja,“ segir hún.

„Einnig eru ótrúlega margar og mikilvægar sögur í samfélaginu frá fólki sem er að ganga í gegnum erfiðleika og að sjá hvað góðgerðafélögin eru stór partur af samfélaginu öllu.“ bætir hún við. 

Eins og er eru 14.300 hlauparar skráðir.
Eins og er eru 14.300 hlauparar skráðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri konur skráðar en karlar

Að sögn Selmu er kynjahlutfallið mjög jafnt í ár, en eins og áður eru örlítið fleiri konur skráðar til þátttöku en karlar

Í fyrra var safnað 199 milljónum króna, en Selma vonast til að ná yfir 200 milljónir í ár. „Eins og er erum við undir 200 milljónum, en það kemur samt alltaf mest inn á hlaupadaginn sjálfan og söfnuninni lýkur ekki fyrr en á mánudaginn.“

Á hlaupadaginn sjálfan verða posaþjónustur hjá Fit & Run Expo og fyrir utan Menntaskólann í Reykjavík þar sem hægt er að greiða inn í sameiginlegan sjóð til allra góðgerafélaganna að sögn Selmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert