Aðgerðirnar ekki hluti af neyðarviðbragði

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafnar því að þær aðgerðir sem nú hefur verið ráðist í innan grunnskólakerfisins séu neyðarviðbragð vegna alvarlegrar stöðu þess.

Spjótin standa á ráðherra

Þetta kemur fram í nýju viðtali við ráðherra í Spursmálum þar sem hann situr fyrir svörum.

Öll spjót hafa staðið á Ásmundi Einari og ráðuneyti hans vegna fyrirhugaðra breytinga á vettvangi grunnskólakerfisins. Alþjóðlegir mælikvarðar sýna að íslenska grunnskólakerfið skrapar botninn þegar kemur að lesskilningi barna, stærðfræðikunnáttu og þekkingu á náttúruvísindum. Ásmundur Einar segir að sú aðgerðaáætlun sem nú sé verið að innleiða muni skila bættum árangri en hún teygir sig allt til ársins 2030.

Snörp orðaskipti

Í snörpum orðaskiptum bregst Ásmundur Einar við gagnrýninni. Má þau sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Þegar maður skoðar stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem núna hefur brátt setið í átta ár en ég er að vísa í nýjasta sáttmálann frá 2021. Þar er boðuð stórsókn í menntamálum, upp úr og niður úr og þið hafið sannarlega talað fyrir því. þið hafið  verið að bæta fjármagni inn í kerfið. En á sama tíma blasir það við að kerfið er í molum. Þú nefnir nýja stofnun í kringum menntamálin, hún er stofnuð á rústum annarrar stofnunar sem hreinlega var lögð niður. Hér eru ekki samræmd könnunarpróf vegna þess að kerfið var allt í lamasessi, skólagögnin eru í ólestri, skólahúsnæði vítt og breitt um landið myglað. Kjörtímabilið er að verða búið. Er þetta ekki of seint í rassinn gripið?

„Ja það er auðvitað mjög mikilvægt þegar þú ert að ræða breytingar á skólastarfi og allt það sem þú nefnir hér og ég hef farið yfir líka undanfarið og tengist þessum málum, eru breytingar sem í eðli sínu taka ákveðinn tíma. Þetta eru grundvallarbreytingar. Aðdragandi þeirra er rammaður inn í menntastefnu til 2030. Við erum að vinna að aðgerðaáætluninni núna sem tengist fyrsta áfanga þessarar menntastefnu. Þannig að það má segja að við séum að komast inn í þann kafla þar sem aðgerðirnar komast til framkvæmda.“

En átti það ekki að gerast í upphafi kjörtímabilsins, þú verður ekki, ja mjög ósennilega, í ráðherraembætti og yfir þessum málaflokki þegar þessum verður í raun og veru ýtt úr vör.

„Ja, undirbúningurinn tekur tíma. Aðgerðirnar taka tíma. Menntastefnan er hugsuð þannig að við ætlum okkur til 2030 að ná grundvallarbreytingum á menntakerfinu.“

Ásmundur Einar Daðason er gestur Spursmála að þessu sinni.
Ásmundur Einar Daðason er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is/María Matthíasdóttir

Langt ferli

En er þá þessi undirbúningsvinna búin að standa í þrjú ár. Þegar ég skoða fréttirnar að þetta séu einhverskonar neyðarviðbragð sem hafi fyrst og fremst komið fram eftir covid, kannski 2023 og á fyrri hluta þessa árs.

„Nei, aðgerðirnar, til að mynda bæði námsgögnin og líka matskerfið og skólaþjónustuna og ný stofnun er að fara í verkefni varðandi samhæfingu þegar kemur að börnum með erlenda tungu og menningarbakgrunni. Allt eru þetta verkefni sem eru að komast á framkvæmdastig og erum líka að vinna í mjög þéttu samstarfi við skólayfirvöld, við háskólana, við sveitarfélögin því það hefur í gegnum tíðina í allt of miklum mæli hafa grunnskólarnir, grunnskólakerfið sem rekið er af sveitarfélögunum og ríkið svo með framhaldsskólakerfið og ákveðna hluta sem lúta að eftirliti og öðru, það hefur verið alltof lítil samvinna milli þessara aðila“ segir Ásmundur Einar.

Og hann segir nýja nálgun auka á samstarf.

„Og menntastefnan færir aðilana nær hver öðrum því það á auðvitað ekki að vera þannig að þegar kemur að námi barnanna okkar þá séum við ekki að vinna þéttar saman, ríkið og sveitarfélögin. Þannig að grundvallarbreytingar sem verið er að stíga núna eru kannski núna að komast fyrst núna til framkvæmda þannig að það er ekki af vorkunn gagnvart þeim sem hér situr. Ég held að það sé frekar Lilja Alfreðsdóttir, sem setti þessa vinnu af stað, gerði sér grein fyrir því að svona breytingar taka tíma, menntastefnan sem var samþykkt, og nú erum við að komast til aðgerða og við sjáum það og erum í vaxandi mæli núna að sjá verkefni þar sem við erum inni í skólunum, erum að vinna með sveitarfélögum, inni í einstaka skólum í einstaka sveitarfélögum og við munum sjá það aukast mikið bæði núna í vetur, eða síðasta vetur, núna í vetur og svo veturinn á eftir.“

Viðtalið við Ásmund Einar má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Í þáttinn mættu einnig þau Hólmfríður María Ragnhildardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri. Þau ræddu helstu fréttir vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert