Allt eðlilegt í reksti orkuversins í Svartsengi

Orkuverið í Svartsengi.
Orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Arnþór

„Við berum okkur bara vel og það er allt eðlilegt í rekstrinum hjá okkur í orkuverinu í Svartsengi,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, í samtali við mbl.is.

Hún segir að gosið hafi komið upp á eins heppilegum stað og gat orðið með tilliti til starfseminnar í Svartsengi.

„Það er engin starfsemi í Svartsengi við þessar aðstæður og við fjarstýrum allri framleiðslunni frá Reykjanesvirkjun og komum því strax á síðastliðið haust þegar þetta hófst allt saman,“ segir Birna.

Gekk vel að rýma svæðið

Birna segir að ekkert starfsfólk HS Orku hafi ekki verið á staðnum í gærkvöld. Hún segir að verktakar á vegum Ístaks séu í miklum framkvæmdum nánast allan sólarhringinn við stækkun og orkuversins og að bæta það og það hafi gengið vel að rýma svæðið.

Neyðarstjórn HS Orku stendur vaktina og segir Birna að hún sé alltaf til taks.

„Við erum stór hópur sem skipum neyðarstjórnina og það tekur vanalega nokkrar mínútur að ræsa hann. Hún var ræst út í gærkvöld og þetta er að verða næstum því eins og daglegt brauð,“ segir Birna.

Frá eldsstöðvunum við Sundhnúkagíga í morgun.
Frá eldsstöðvunum við Sundhnúkagíga í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Eldgosið sem hófst í gærkvöld er það níunda á Reykjanesskaganum á rúmum þremur árum og það fimmta á Sundhnúkagígaröðinni en gosið kom upp á svipuðum slóðum og gosið í maí eða austan Sýlingarfells.

„Það er alveg makalaust að verða vitni að því hvernig fólk bregst við, ekki bara innan okkar fyrirtækis heldur hvernig allir viðbragðsaðilar vinna vel, þétt og hratt að því að bregðast við þessum aðstæðum. “

Hún segir að samstarf almannavarna, HS Orku, dreifiveitunnar og ekki síst Veðurstofunnar sé orðið mjög smurt og sérfræðingar HS Orku í auðlindastýringu sitji reglulega fundi með Veðurstofunni og séu í miklu og góðu samstarfi við sérfræðinga Veðurstofunnar.

Borholu þrýstingsmælar hafa komið sér vel

„Þetta hefur leitt af sér ákveðna nýsköpun. Við þróuðum með okkur borholu þrýstingsmæla sem eru að mæla þrýstinginn sem gefur þá til kynna þegar það verða breytingar á honum og gos sé í aðsigi. Það gerðist enn og aftur í gær,“ segir Birna.

Hún segir að borist hafi merki um þrýsting klukkan tíu mínútur í 9 í gærkvöld og fyrsta viðvörunin hafi farið út laust fyrir klukkan 9 eða um hálftíma áður en gosið hófst. Þetta sé því að virka að sögn Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert