Björgunarsveitir kallaðar út vegna fjölda veikinda

Björgunarsveitir voru kallaðar út seint í gær etir að fjöldi …
Björgunarsveitir voru kallaðar út seint í gær etir að fjöldi bara á skólaferðalagi veiktust í skála við Emstrur á Suðurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir á Suðurlandi eru þessa stundina að flytja fjölda ferðamanna sem hafa veikst undanfarinn sólarhring, flestir í Emstruskála. Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, getur ekki upplýst nánar um veikindin en segir að búið sé að virkja samhæfingarhóp sóttvarna og málið sé í rannsókn. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysvarnafélaginu Landsbjörg.

Segir þar ennfremur að rétt fyrir miðnætti í gær hafi björgunarsveitir verið kallaðar út vegna hóps skólabarna í skálann í Emstrubotnum en þar voru 15 krakkar orðnir veikir af tæplega 50 manna hóp.

Segir einnig að björgunarsveitir voru varla komnar í hús þegar beiðni kom um að sækja fleiri inn í Emstrur sem voru orðnir veikir. Þá bárust einnig tilkynningar um veikindi í Básum á Goðalandi.

„Það er vitað að það fór einhver fjöldi gangandi frá Emstrum í Bása í morgun. Það var verið að reyna að ná í þá til þess að snúa þeim við því það væri erfitt að koma fyrir tækjum á þessari gönguleið til þess að sækja þau ef fólk væri að veikjast,“ segir Jón Þór Víglundarson, upplýsingarfulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is

Búið að virkja samhæfingarhóp

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að búið sé að virkja út samhæfingarhóp sóttvarna varðandi hópsýkinguna. Þá sé ekki hægt að segja til um hverskonar sýkingu sé að ræða ennþá.

„Við erum að rannsaka málið. Það er búið að virkja samhæfingarhóp sóttvarna. Þetta er bara í vinnslu,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is 

Er hægt að segja til um hvers konar sýking þetta er? 

„Nei.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert