Breytingar eru fyrirhugaðar í sánaklefum í Vesturbæjarlaugar og verður nú bara einn klefi fyrir öll kyn.
Þessar breytingar taka gildi nú um helgina þegar laugin verður opnuð aftur eftir framkvæmdir.
Sánaklefinn verður þar sem áður var sánaklefi og búningsklefi fyrir konur.
Rýmið verður því ekki lengur búningsaðstaða heldur sána, slökunarrými, skolsturtur og salerni.
Ákvörðun um breytinguna var tekin vegna þess að sánaklefi karla er því sem næst ónothæfur og eftir úttekt í viðhalslokun var staðan metin þannig að betra væri að loka klefanum alveg í stað þess að hefja viðgerðir.
Á Facebook-síðu Vesturbæjarlaugar segir að sánaklefar karla og kvenna séu elsti hluti mannvirkisins og komnir til ára sinna. Breyta á klefunum úr því að vera búningsaðstaða yfir í að vera einungis sánaklefar með bæði infrarauðri sánu og þurrsánu. Infrarauð sána hefur þó ekki verið tekin í gagnið.
Fyrirkomulagið er í takt við þær kröfur um að hafa ekki kynjuð rými. Breytingarnar fela einnig í sér að ekki verður lengur heimilt að vera nakinn í sánu og handklæðaskylda tekin upp.
Á Facebook-síðu sundlaugarinnar segir að öryggi gesta verður betur tryggt þar sem hægt verður að vakta sánurnar með öryggismyndavélum, sem ekki var hægt áður þegar fólk var þar nakið.