Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir að Miðflokkurinn taki ekki vel í nokkra þætti uppfærðs samgöngusáttmála. Hann segir að ummæli tveggja ráðherra gefa til kynna að ráðamenn hafi gefist upp á kostnaðaráætlun sáttmálans áður en blekið frá undirritun samningsins hafi þornað.
„Við teljum að þessi áhersla á að þrengja að almennri umferð fjölskyldubílsins sé úr öllu hófi gengin. Við höfum séð á þessu fyrstu fimm árum [eftir fyrstu undirritun] að það er þrengt að og tafið fyrir stofnbrautaframkvæmdunum á meðan reynt er að ýta borgarlínuhlutanum hraðar áfram heldur en skynsamlegt getur talist,“ segir Bergþór í samtali við mbl.is.
Hann segir að verið sé að bæta við að raunvirði 141 milljarði króna ofan á áætlunina án þess að neitt verði til þess að auka eða bæta flæða umferðar um höfuðborgarsvæðið.
Áætlaður kostnaður við samgöngusáttmálann, sem nú er 311 milljarðar, er umtalsvert meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í fyrra, en þá var áætlaður kostnaður um 170 milljarðar. Upphaflega þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður árið 2019 var áætlaður kostnaður 120 milljarðar.
Bergþóri þykir þá sérstaklega ámælisvert að sáttmálinn sé undirritaður þremur vikum áður en þing kemur saman þar sem það sjái um fjárveitingarnar að stærstum hluta.
„Mér sýnist þetta nú vera verra en alla jafna,“ segir hann um þá miklu hækkun í kostnaðaráætlun á milli ára.
„Hluti af vandamálinu er auðvitað að það er búið að kippa öllum hefðbundnum ferlum úr sambandi í tengslum við þetta opinbera hlutafélag sem heitir Betri samgöngur ohf.. Þessar stofnbrautaframkvæmdir sem eru svo gríðarlega mikilvægar en komast ekkert áfram virðast vera í einhvers konar gíslingu þeirra sem sjá ekkert nema borgarlínuna innan samgöngusáttmálans,“ segir hann.
Hann telur að allir styðji við aðgerðir á borð við ljósastýringar og fjölgun göngu- og hjólastíga.
„Það er auðvitað búið að vera grátlegt að fylgjast með því hversu tregir menn hafa verið til að bæta ljósastýringarnar því það er ódýrasta aðgerðin sem hægt er að ganga í hratt. En það er eins og borgarlínukirkjan vilji ekki bæta umferðarflæðið því þá tapa þau vandamálinu sem þau nota sem rökstuðning fyrir því að reyna þvinga alla í strætó.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að það gæti vel verið áætlaður kostnaður við samgöngusáttmálann, sem nú er 311 milljarðar, muni hækka.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra talaði um sáttmálann sem „lifandi reikningsdæmi“ en enn á eftir að útfæra ýmis atriði varðandi fjármögnun hans.
„Það er auðvitað fráleitt að þetta sé staðan á þeim degi sem skrifað er undir samninginn. Ég held að þetta sé stærsti óútfyllti tékki sem hefur blasað við okkur lengi, sem birtist þarna í yfirlýsingum þessara tveggja ráðherra. Það að þeir séu búnir að gefast upp gagnvart kostnaðaraðhaldinu áður en blekið er þornað undir samningnum, þar er eitthvað sem alla vini skattgreiðenda hlýtur að óa við,“ segir Bergþór.
Að lokum segir hann að enginn sé að tala fyrir því að gera ekki neitt. Það sé aðferðarfræðin sem mönnum greinir á um.