„Einhver tími í að hraun renni yfir Grindavíkurveg“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að það eigi eftir að skýrast með morgninum hvort einhverjir innviðir séu í hættu á Reykjanesskaganum vegna eldgossins sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöld.

„Mér sýnist að það verði einhver tími í það að hraun renni yfir Grindavíkurveg en það er kannski helst það sem menn hafa áhyggjur af í augnablikinu. Hraun er ekki að renna í áttina að Grindavík sem er mjög jákvætt og það gengur allt vel,“ segir Úlfar við mbl.is en viðbragðsaðilar funda nú um stöðuna á Reykjanesskaganum og eftir þann fund skýrist myndin eilítið að sögn Úlfars.

Úr þyrluferð Landhelgisgæslunnar og almannavarna yfir gosstöðvarnar í nótt.
Úr þyrluferð Landhelgisgæslunnar og almannavarna yfir gosstöðvarnar í nótt. mbl.is/Eyþór

Úlfar segist ekki hafa heyrt neitt annað en að rýmingin hafi gengið vel í gærkvöld. Hann segir það eftirtektarvert og ánægjulegt að viðbragð Veðurstofunnar og almannavarna hafi gengið svona vel.

„Við erum búin að bíða eftir þessu gosi í nokkrar vikur og þegar við fórum loksins í það að rýma svæðið þá fengum við eldgoss innan við hálftíma síðar. Á þessum tíma hefur ekki komið til þess að við höfum farið í rýmingu án þess að það gjósi eða það verði kvikuhlaup og ég er mjög ánægður með fagleg vinnubrögð Veðurstofunnar,“ segir lögreglustjórinn.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Óttar

Þekkingin orðin ansi mikil

Hann segir að þetta sýni að þekkingin sé orðin ansi mikil þótt menn geti aldrei staðfest þetta nákvæmlega en eldgosið sem hófst í gærkvöld er það níunda á Reykjanesskaganum á rúmum þremur árum og það fimmta á Sundhnúkagígaröðinni.

Úlfar segir að tekist hafi að halda Reykjanesbrautinni opinni í báðar áttir í gærkvöld og í nótt.

„Það er ekki sjálfu sér ekkert hægt að segja við því þótt ökumenn stöðvi í vegkantinum. Það fylgir svona viðburði en þetta gekk allt vel,“ segir Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert