Vinna við hækkun á varnargarðinum L6, milli Sýlingafells og Hagafells, hefur haldið áfram í dag þrátt fyrir eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga í gærkvöldi.
„Eins og þetta er að þróast núna í þessu gosi að þá er þetta bara eins og hver annar dagur hjá okkur,“ segir Jónas Þór Ingólfsson, jarðfræðingur hjá Eflu, í samtali við mbl.is.
„Þetta er bara þarna norðan við okkur eins og er og þangað til annað kemur í ljós, þá höldum við bara okkar striki hér eins og frá var horfið,“ segir hann.
Enn sem komið er hefur ekki þurft að láta reyna á varnargarðana í þessu gosi og Jónas segir að þeir sem vinna að varnargörðunum séu slakir yfir þessu.
Eins og er erum við bara tiltölulega slakir, þetta virðist ekki vera að sýna sig neitt í að koma til okkar hérna þar sem að okkar fókuspunktur er, Svartsengi,“ segir hann.
Jónas segir að með hækkun varnargarðsins sé verið að reyna verja þá innviði sem eru í Svartsengi: Jarðvarmavirkjunina og þar með hitaveituna fyrir öll Suðurnesin.
„Og svo Grindavík hérna fyrir neðan náttúrulega en það er ekkert að sýna sig í þá áttina núna í þessum atburði,“ segir Jónas.
Eruð þið langt komnir með að klára þessa framkvæmd?
„Það sem að liggur fyrir hjá okkur núna er kannski þrjár, fjórar vikur í þessari hækkun sem er í gangi núna,“ segir Jónas.