Ekkert samráð við lækna Yazans um lífshættulega flutninga

Lögfræðingur Yazans segir íslenskum stjórnvöldum bera að leita svara og …
Lögfræðingur Yazans segir íslenskum stjórnvöldum bera að leita svara og trygginga frá viðtökuríki um móttöku Yazans. Samsett mynd

Svo virðist sem lögregla ætli að virða að vettugi ábendingar frá réttargæslumanni fatlaðra um hvernig best sé staðið að flutningi Yazans Tamimi úr landi.

Þetta segir lögfræðingur hans Albert Björn Lúðvígsson. Hann segir lögreglu enn ekki hafa gefið upp tímaramma um hvenær standi til að flytja Yazan til Spánar. 

Kveðst Albert hafa fengið þau svör frá lögreglu að læknir yrði um borð í flugvélinni, við fyrirspurn sinni um hvort samráð yrði haft við lækna Yazans um flutningana. Því mega lesa af svörum lögreglu að læknir sem aldrei hafi hitt Yazan né þekki til sjúkrasögu hans verði með í för. 

„Réttindagæslumaður fatlaðra gaf ábendingar til lögreglu um hvernig ætti að standa að flutningnum en lögregla ætlar ekki, virðist vera, að verða við því, eða ræða við þá lækna sem hafa sinnt þjónustu við Yazan.“

Yazan grét úr sársauka

Yazan er ellefu ára gamall og þjáist af taugarýrnunarsjúkdómnum Duchenne en allt hnjask getur valdið honum miklu heilsutjóni eða jafnvel dregið hann til dauða. 

Yazan dvelur nú í Rjóðrinu eftir að réttindagæslumaður fatlaðra sendi hann á bráðamóttöku þar sem honum hafði hrakað verulega vegna rofs á þjónustu við hann í sumar. Greindi réttindagæslumaður Ríkisútvarpinu frá því fyrr í vikunni að Yazan hefði grátið af kvölum þegar hún heimsótti hann. 

Segir Albert umönnun Yazans flókna og erfiða og foreldra hans ekki treysta sér til að annast hann alfarið sjálf vegna eðli og alvarleika sjúkdómsins. 

Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur.
Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur. Ljósmynd/CPLS

Vita ekki hvað tekur við á Spáni

Hann segir mikla óvissu ríkja varðandi hvað taki við fyrir Yazan og fjölskyldu hans þegar til Spánar er komið, en þau viti ekki einu sinni hvort þau fljúgi til Barcelona eða Madrid. Búast megi við að fjölskyldan þurfi að bíða minnst fimm mánuði eftir því að komast inn í kerfið þar í landi. 

„Að mínu mati ber lögreglunni að sjálfsögðu að afla allra nauðsynlegra gagna, vottorðum frá læknum og fleira, svo að það rof sem mun óumflýjanlega verða á þjónustu við hann verði vonandi sem styst,“ segir Albert.

„Þetta er eitthvað sem mannréttindadómstóllinn ítrekaði í Hussein Hussein málinu, að íslensk stjórnvöld þyrftu að leita svara og trygginga frá viðtökuríki en því miður ætla þau ekki að gera það í þessu máli með mikið veikan og fatlaðan einstakling.“

Aðspurður segir hann ólíklegt verði tekið upp af mannréttindadómstólnum þar sem hælisleitendakerfið sé þó betra þar en í Grikklandi. 

Hafa ekki rannsakað mál Yazans til þaula

Spurður hvort farið sé að bera meira á að íslensk stjórnvöld brottvísi fólki úr landi þvert á læknisráð, líkt og í tilfelli Yazans, Blessing Newton og Hussein Hussein segir Albert svo virðast vera.

Hussein Hussein hafi ekki verið vísað úr landi en stjórnvöld hafi þá vísað fjölskyldu hans úr landi án hans og hann þá á endum sjálfur hrökklast á brott, enda hafi hann reitt sig mikið á stuðning fjölskyldunnar vegna fötlunar sinnar. 

„En já það verður að viðurkennast að það hefur mikil harka færst í þetta kerfi. Það vekur svolitlar áhyggjur að kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun hafa aldrei í raun rannsakað mál Yazans til þaula,“ segir Albert.

„Besta dæmið um það er þegar kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í málinu 21. mars s.l. þá kom fram í þeim úrskurði að Yazan sé hvorki í þjónustu né njóti læknismeðferðar á Íslandi. Sem er augljóslega röng fullyrðing.“

Hann segir nefndinni hafa verið afhent gögn um nákvæmlega það í kjölfarið en hún hafi engu að síður ekki séð ástæðu til að taka málið upp að nýju.

„Kerfið er að bregðast honum í þessu máli, það verður að segjast.“

Fjölskyldan ekki í stöðu til að fela Yazan

Spurður hvort hann telji að lögreglan tilkynni fólki um tímasetningu brottflutnings með skömmum fyrirvara til að koma í veg fyrir að fólk fari í felur eða reyni að koma sér hjá flutningunum, eins og hafa verið dæmi um, segir Albert það góða spurningu.

Mikilvægt sé þó að lögregla gæti hófs í aðgerðum sínum og sýni mannúð þegar um ræði mjög veikan og fatlaðan einstakling. 

„Það er engin spurning um að hér á Íslandi hefur fólk falið sig til að komast undan brottvísun rétt eins og það eru Íslendingar til sem keyra of hratt og brjóta umferðarlög. Það þýðir ekki að lögreglan geti sett alla undir sama hatt og sent öllum Íslendingum umferðarsekt með regluleg millibili,“ segir Albert. 

„Þessi fjölskylda sem um ræðir er bara ekki einu sinni í þeirri stöðu að geta falið Yazan og jafnvel þó að einhver fjölskyldumeðlimur myndi grípa til slíkra óyndisúrræða þá er ekkert til fyrirstöðu að lögreglan flytji aðra fjölskyldumeðlimi úr landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert