Lengd gossprungunnar hefur haldist óbreytt síðustu klukkustundina, en hún er áætluð um 4 kílómetrar. Mesta virknin er við norðurenda gossprungunnar. Því er talið að ólíklegt sé að sprungan komi til með að lengjast til suðurs, eða til Grindavíkur. Hins vegar er ekki útilokað að gossprungan geti lengst til norðurs.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni vegna gossins sem hófst í kvöld.
Hraunrennsli er áfram til austurs og til vesturs í átt að Grindavíkurvegi. Ekkert hraunrennsli er til suðurs í átt að Grindavík.
Landhelgisgæslan mun fara í annað eftirlitsflug með vísindamönnum og fulltrúum almannavarna síðar í nótt.
Myndskeiðið hér að neðan er úr fyrri ferð Gæslunnar í kvöld.