Ellefu á Íslandi – 900 í Bretlandi

Þessari er ekki stirt um stef eins og Bólu-Hjálmari í …
Þessari er ekki stirt um stef eins og Bólu-Hjálmari í vísunni. Guðrún Björk Bjarnadóttir hefur stýrt STEFi frá 2011 og segir mbl.is frá starfsemi sem ekki allir vita út á hvað gengur ef marka má nýlega Gallup-könnun fyrir STEF. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur alltaf heppnast afskaplega vel og við höfum gert þetta nokkuð oft, fyrst árið 2014,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs í samtali við mbl.is og ræðir þar um tónleika sem flutningsréttarsamtökin standa fyrir á Menningarnótt undir heitinu STEFnumót.

Munu listamenn viðburðarins kveðja sér hljóðs í bakgarði við Laufásveg 40 og stígur þar ekki ómerkari sveit en Breiðholtsbandið Langi Seli & Skuggarnir á stokk en skemmst er að minnast þess er sveitin hafnaði í öðru sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins, undanrásum Eurovision-söngvakeppninnar, í fyrra.

Aðrir flytjendur verða Sigga Ózk, Úlfur Úlfur og Kristín Sesselja og segir Guðrún Björk hugsunina á bak við uppákomuna vera að gera STEF sýnilegra almenningi. „Við bjóðum fólki að koma hérna í húsið og kynnast starfseminni, og á þessu hefur verið sama snið frá upphafi, alltaf fjórir flytjendur sem flytja eigin tónlist,“ segir framkvæmdastjórinn enda bryti annað líkast til í bága við grunnstef samtakanna sem snúast einmitt um að vera samtök tónhöfunda og eigenda flutningsréttar.

Margir komi ár eftir ár

„Þetta er eitthvað fyrir alla, ólíkar tónlistarstefnur í bland sem gera þetta einmitt svo skemmtilegt. Sigga Ózk hefur til dæmis verið kölluð hin íslenska Ariana Grande og er frábær tónhöfundur sem einnig hefur tekið þátt í söngvakeppninni. Úlfur Úlfur er svo rapparadúett sem hefur verið lengi í rappsenunni en kemur alltaf með nýtt og ferskt efni. Að lokum er það Kristín Sesselja sem vakið hefur mikla athygli fyrir tónlist sína og texta,“ segir Guðrún Björk af flytjendum morgundagsins – Menningarnætur í Reykjavík.

Hún segir marga gesti koma ár eftir ár og bakgarður STEFs henti einkar vel fyrir uppákomuna. STEF velur listamennina ár hvert og gengur út frá því að tónlistarstefnur séu ólíkar, listamennirnir á öllum aldri og kynjahlutfall flytjenda jafnt.

Listamenn morgundagsins, hvort tveggja í eiginlegri merkingu og táknrænni.
Listamenn morgundagsins, hvort tveggja í eiginlegri merkingu og táknrænni. Ljósmynd/Aðsend

„Í huga allra snýst Menningarnótt um tónlist að miklu leyti og með þessu langar okkur að sýna almenningi hvað STEF er, því listamennirnir sem koma fram hjá okkur eru allt höfundar sem eru félagar í STEFi,“ útskýrir Guðrún Björk og segir STEF einnig nota tækifærið til að opna hús sitt og kynna starfsemina en hún mun sjálf halda stutt kynningarerindi á morgun.

Er fólk almennt meðvitað um hvað STEF er og hvað það stendur fyrir?

„Við báðum Gallup að gera könnun fyrir okkur ekki alls fyrir löngu og það var mjög forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar,“ svarar Guðrún Björk og grúskar í tölvu sinni til að geta borið áreiðanlegar tölur á borð. Samkvæmt þeim komst Gallup að þeirri niðurstöðu að þeir sem teldu sig þekkja starfsemina vel séu rétt um fimm prósent en tæp 30 prósent kváðust þekkja eitthvað til starfseminnar. Þá sögðust 43 prósent hafa heyrt um STEF en ekki vita svo gjörla um hvað starfsemin snerist. Að lokum höfðu önnur 30 prósent aldrei heyrt um STEF.

Mikil viðhorfsbreyting í garð STEFs

„Er þetta góð niðurstaða eða slæm? Ég veit það ekki,“ játar framkvæmdastjórinn hreinskilnislega. Þegar fólk hafi verið spurt út í hvort það upplifði STEF sem eitthvað jákvætt sögðu 35 prósent svo vera en langstærsti hópurinn, tæp 60 prósent, sagði hvorki né og hafði enga sérstaka skoðun. „Fremur neikvæðir voru þó mjög fáir og ég held að það sé mikil breyting á viðhorfi gagnvart STEFi ef við lítum til kannski síðustu tíu ára,“ segir Guðrún Björk.

Friðrik Karlsson með Langspilið í apríl næstliðinn, verðlaun sem STEF …
Friðrik Karlsson með Langspilið í apríl næstliðinn, verðlaun sem STEF veitir árlega og hagleiksmaðurinn Jón Sigurðsson á Þingeyri smíðar hvert ár fyrir verðlaunaafhendinguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

STEF hafi breytt algjörlega sínu viðhorfi varðandi nálgun við sölu- og innheimtumál. „Við höfum lagt áherslu á að við erum að selja vöru sem hefur mikið virði í stað þess að tala um réttindi og skyldur og að ef þú borgar ekki hafi það afleiðingar. Tónlist hefur virði fyrir atvinnurekstur og getur skipt verulega máli,“ heldur hún áfram og er spurð út í hvort tónlistarmenn leiti í mörgum tilfellum til STEFs að eigin frumkvæði.

„Við vitum auðvitað aldrei nákvæmlega hvað verður til þess að fólk kemur til okkar en nýliðunin er ótrúlega mikil, bara í fyrra gerðust tæplega 400 manns félagar í STEFi og mér persónulega finnst það ótrúlegt að svo margir komi og skrái sig hjá okkur. Árið áður vorum við með 233 þannig að þetta er gífurlegt stökk,“ svarar Guðrún Björk.

Sífellt á tánum

STEF sé sífellt í kynningarstarfi og fái til dæmis þátttakendur í Músíktilraunum upplýsingar um samtökin auk þess sem kynningar séu haldnar víða um land og samfélagsmiðlum beitt. „Auðvitað þurfum við stöðugt að minna á okkur og segja fólki að við séum til,“ heldur framkvæmdastjórinn áfram.

Hún segir STEF innheimta fyrir alla en samkeppnin sé hins vegar grimm við erlend höfundarréttarsamtök. „Við þurfum virkilega að vera á tánum til að halda okkar höfundum hjá okkur.“

Geta erlend samtök þá innheimt höfundarréttargjöld hér á landi?

„Stutta svarið er nei,“ byrjar Guðrún Björk, „til þess að geta innheimt fyrir alla hér á landi fyrir útvarps- og sjónvarpsflutning tónlistar þarf sérstaka viðurkenningu ráðuneytisins og það er síðan engan veginn hagkvæmt fyrir þessi erlendu samtök að reyna að innheimta höfundaréttargjöld hér af minni aðilum eins og verslunum og veitingastöðum. Hins vegar innheimta erlend höfundaréttarsamtök fyrir streymi erlendrar tónlistar hér á landi. Þessi samkeppni snýr fyrst og fremst að því ef íslenskir listamenn fara að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði þannig að eftir sé tekið, þá eru erlendu samtökin strax komin í málið og reyna að ná þeim til sín.“

Reykvíkingar og nærsveitungar streyma í miðborgina á Menningarnótt þar sem …
Reykvíkingar og nærsveitungar streyma í miðborgina á Menningarnótt þar sem jafnan er margt um dýrðir. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fáir lifi af tónsmíðum einum

Í framhaldinu nefnir Guðrún Björk þá hnyttnu staðreynd að erlendu samkeppnisaðilarnir séu um leið bestu samstarfsaðilar STEFs. „Þessi sömu samtök innheimta fyrir okkur fyrir þann flutning sem á sér stað erlendis og skila fjármunum hingað, rétt eins og við innheimtum til dæmis frá Bylgjunni bæði fyrir erlenda og innlenda höfunda. Í gegnum okkur fá Justin Timberlake og Kanye West og fleiri greitt, við sendum peninga áfram til þeirra höfundarréttarsamtaka,“ útskýrir Guðrún Björk.

Að meðaltali segja íslenskir höfundar að greiðslur frá STEFi séu um fimm til tíu prósent af heildartekjum þeirra. „Mjög fáir íslenskir höfundar geta lifað af því að vera eingöngu tónhöfundar. Flestir höfundar eru líka flytjendur og fá greitt fyrir að koma fram eða starfa við tónlistarkennslu og fleira, starfa fyrir aðra við upptökur eða koma á einn eða annan hátt að tónlistarlífinu,“ segir Guðrún Björk og segir að rúmlega hundrað höfundar fái úthlutað á aðra milljón króna á ári frá STEFi.

Aðspurð kveður hún STEF hafa langflesta íslenska tónlistarhöfunda á sínum snærum, „það eru kannski 99 prósent en þetta eina prósent sem vantar eru oft þeir sem eru orðnir heimsfrægir og komnir með erlendan umboðsmann, erlendan forleggjara og erlendan lögmann og þá er oft kominn mikill þrýstingur á að flytja sig þangað sem þessir aðilar þekkja til, en þeim sömu aðilum finnst stundum skrýtið að einhver lítil samtök á Íslandi geti veitt jafn góða þjónustu og risastór erlend samtök“, heldur hún áfram.

Nefnir Guðrún Björk sem dæmi að hjá STEFi starfi ellefu manns en í systursamtökunum í Bretlandi starfi 900 manns og um eða yfir hundrað í hverju skandinavísku ríkjanna.

Vekja athygli á ungu fólki

„Nú erum við að brydda upp á skemmtilegri nýbreytni og mun STEF nú á Menningarnótt veita þremur ört vaxandi höfundum sérstaka viðurkenningu sem er nokkuð sem við höfum ekki gert áður. Þannig langar okkur að vekja athygli á ungu fólki sem stendur sig vel í tónlistarsköpun og við munum ekki gefa upp fyrir fram hverjir þetta verða,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs kankvís og býr sig undir góða skemmtun og gestafjöld á tónleikum á morgun.

Tónleikarnir eru hjá skrifstofu STEFs að Laufásvegi 40 í bakgarðinum og hefjast klukkan 16 á Menningarnótt og standa til 18. Aðgangur er ókeypis og verður gestum boðið upp á kaffi og kex á meðan þeir njóta ljúfra tóna gamalgróinna en jafnframt nýsprottinna íslenskra listamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert