Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir einkenni sýkingarinnar sem herjað hefur á ýmsa hópa á Suðurlandi einkennandi fyrir nóróveiru og sé verið að safna sýnum frá fólki til staðfestingar.
Framkvæmdastjórar þeirra félaga sem eiga skálanna sem veikindi komu upp í segja að skálarnir verði nú þrifnir líkt og á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá er vitað um minnst 26 manns sem að veiktust.
Í samtali við mbl.is segir Guðrún að engin alvarleg veikindi hafi komið upp og að einkenni bendi til nóróveirunnar.
„Þetta er frekar bráð magakveisa sem er oft einkennandi fyrir nóróveiru. Þetta eru uppköst og niðurgangur og hjá einhverjum kannski vægur hiti. Það er svona það sem við höfum heyrt af en ekki nein alvarleg veikindi.“
Segir hún að fundað hafi verið í morgun með aðilum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, og Heilsugæslunni á Suðurlandi þar sem farið var yfir málið.
„Það er verið að sinna fólkinu og taka sýni og svo líka að koma út leiðbeiningum um forvarnir. Svo er fólk á þessum stöðum auðvitað að sinna þrifum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi smit.“
Ferðafélag Íslands rekur skálana í Emstrum þar sem fyrstu tilfelli hópsýkingarinnar komu upp.
„Það er verið að vinna í því að greina uppruna smitsins. Það liggur ekki fyrir ennþá hvort þetta sé vatn eða matur eða einhver almenn veikindi. Við bíðum eftir þeim niðurstöðum sem er kannski bara von á vonandi sem fyrst og þá munum við fylgja leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda varðandi næstu skref,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, í samtali við mbl.is
Tekur Páll fram að nú séu umfangsmikil þrif í gangi þar sem meðal annars sé unnið með aðferðir sem notast var við í faraldrinum. Þá er einnig byrjað að sjóða vatn til neyslu til öryggis en segir Páll það ólíklegt að uppruni sýkingarinnar megi rekja til vatnsbóls staðarins.
„Hvort sem þetta sé í vatninu eða vatnsbólinu sem er nú talið ólíklegt því að við erum með uppsprettu lindir, ekki yfirborðsvatn. En það er ekki hægt að útiloka það. Það er bara verið að meta og reyna að finna út úr hvort þetta sé vatnið eða matareitrun eða önnur veikindi.“
Er vitað hve margir urðu veikir?
„Það voru upphaflega fimm í einum hóp sem voru orðnir veikir en síðan eru tuttugu og einn í öðrum hóp og sú tala hefur farið hækkandi. Hver heildartalan er höfum við ekki upplýsingar um að svo stöddu,“ segir Páll og bætir við.
„En þetta er innan ákveðinna hópa og svo líka eru aðrir hópar og annað ferðafólk sem að er ekki veikt og hefur kosið að halda áfram sinni göngu. Við erum ekki að stíga inn í að svo stöddu.“
Hörður Magnússon, framkvæmdastjóri félagsins Útivistar sem rekur skálana í Básum á Goðalandi, þar sem einnig komu upp veikindi, segir göngumenn í hóp sem kom í Bása í gærkvöldi hafa verið lasinn og með einkenni við komuna og telur því uppruna sýkingarinnar ekki vera hjá þeim.
„Það er bara einn einstaklingur sem þurfti á aðstoð að halda en aðrir eru að hjarna við og eru svo á leiðinni heim bara núna. Þeim hópi hefur verið haldið alveg til hlés og hliðar og það svæði sem sá hópur var á verður bara þrifið og farið í gegnum það á fullri ferð.“
Segir hann að tekin hafi verið ákvörðun um að fresta komu næsta hóps í smátíma á meðan verið er að klára sótthreinsun og þrifnað sem menn séu orðnir færir í eftir undanfarin ár.
Nefnir hann þá að fyrirtækið sé búið að vera í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands frá því morgun og máli sé nú einfaldlega í rannsókn.
„Við tökum þetta bara alvarlega og gerum allt sem hægt er að gera til að hjálpa þessu fólki til að byrja með og síðan að gera hlutina klára svo það sé hægt að halda áfram starfseminni með öruggum hætti.“