„Gosflæðið er að draga sig saman á sprungunni eins og venjulega. Mesta virknin er nyrst á eldri sprungunni og sunnar á þeirri sprungu hefur gosið dregið sig saman í minni gosop,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Ný gossprunga opnaðist í nótt rétt norðan við gossprunguna sem fór að gjósa í gærkvöld og segir Sigríður að hún sé ekki jafn virk.
„Hraunflæðið hefur stöðvast 2-300 metra frá Grindavíkurvegi og nú rennur hraunið mest í norðvestur frá virkustu sprungunni og er að umkringja Litla-Skógfell,“ segir Sigríður.
Hún segir að hraun hafi ekki runnið mikið í átt að varnargörðunum sem mest hefur verið unnið við enda sé virknin í gosinu mest norðar. Þeir virðast því ætla að sleppa í bili.
Hún segir að dregið hafi töluvert úr skjálftavirkninni frá því nýjan sprungan opnaðist en það sjáist ennþá aflögunarmerki á gps-mælum.
„Við vitum ekki alveg hvernig eigi að túlka þetta en það verður metið betur með morgninum þegar við höfum safnað fleiri gögnum. Hegðunin í gosinu er aðeins öðruvísi núna þar sem þessi nýja sprunga opnaðist. Við höldum alltaf að við séum búin að læra eitthvað en þá tekur jörðin sig til og gerir eitthvað nýtt,“ segir Sigríður.
Vísindamenn hafa flogið tvisvar sinnum yfir gosstöðvarnar í gærkvöld og í nótt og reiknar Sigríður með því að flogið verði yfir svæðið á nýjan leik í birtingu. Hún segir að ný hraunflæðilíkön verði gerði nú þegar myndin hafi breyst.