Göngumaðurinn sem féll í sprungu í nótt er hann virti fyrir sér eldgosið á Reykjanesskaga var meðhöndlaður við fótbroti.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
Sjúkrabíll var sendur á vettvang til að flytja göngumanninn á sjúkrahús.
„Ég er ekki með nákvæma staðsetningu en hann hefur væntanlega gengið frá Reykjanesbrautinni og hefur stigið í gjótu eða litla sprungu. Hann var meðhöndlaður eins og hann væri fótbrotinn af sjúkraliði,“ segir Úlfar en hafði annars ekki nánari upplýsingar.
Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem hún varaði við því að það væri gríðarlega erfitt og hættulegt að fara á fæti að gosstöðvunum þar sem hraunið sé erfitt yfirferðar á göngu.