Fylgst með unglingadrykkju á Menningarnótt

Lögreglan mun fylgjast vel með unglingadrykkjum og veitingastöðum á Menningarnótt.
Lögreglan mun fylgjast vel með unglingadrykkjum og veitingastöðum á Menningarnótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan mun fylgjast vel með unglingadrykkju á Menningarnótt og mun bregðast við ef þörf krefur. Þetta segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum með sambærilega mönnun lögreglu og áður og höfum gönguhópa á svæðinu sem fylgjast með unglingadrykkju. Einnig verður veitingahúsaeftirlit samhliða því,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is

Hann segir það vera mikilvægt að minna fólk á að þar sem fjölmenni verði í miðborginni þá muni verða mikil umferð inn og út úr bænum. Því sé mikilvægt að sýna þolinmæði.

Hvetja fólk til þess að nota strætó

Ásmundur segir lokunarskipulag Menningarnætur hafa verið unnið í góðu samráði við lögreglu, viðbragðsaðila og Reykjavíkurborg.

Aðspurður segir Ásmundur það koma fyrir að fólk leggi einkabílum sínum á röngum stað sem seinna meir veldur vandræðum. 

„Þetta kemur alveg fyrir, að ökutækjum sé þannig lagt að þau hindri til dæmis flæði umferðar eða aðgang viðbragðsaðila. Þá getum við þurft að hafa upp á eigendum og biðja þá um að fjarlægja bílinn sinn eða þá sem síðasta úrræði þá látum við fjarlægja bílinn.“ segir Ásmundur. 

Þar með hvetur Ásmundur fólk eindregið til þess að nota bílastæðahús eða almenningssamgöngur og kynna sér þær lokanir sem verða á götum Reykjavíkur inn á vef Reykjavíkurborgar.

„Góða skemmtun og góða Menningarnótt,“ segir Ásmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert