Gæti valdið verulegum vandræðum eftir 10-12 tíma

Gert er ráð fyrir að hraunið nái Grindavíkurvegi á hverri …
Gert er ráð fyrir að hraunið nái Grindavíkurvegi á hverri stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir að hraunflæði þurfi að halda áfram af sama krafti í að minnsta kosti 10-12 tíma til þess að það fari að valda verulegum vandræðum. Hann segir að talið sé að flæðið nemi um 1200-1500 rúmmetrum á sekúndu.

„Það sem við erum að sjá er að hraunið er að renna norðar og líka til vesturs í átt að Grindavíkurvegi og við eigum von á að það nái Grindavíkurvegi einhvern tíma á næstu klukkustund eða svo,“ segir Víðir í samtali við mbl.is og bætir við að hraunið muni líklega halda áfram yfir veginn

„Samkvæmt hraunrennslislíkönum sem við erum með mun það halda áfram þegar það kemur að þar og renna yfir hann á stöðum nálægt þeim þar sem hefur farið yfir hann áður.“

Þá segir hann að eins og staðan sé núna ógni hraunið ekki varnargörðunum á svæðinu.

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reynir ekki mikið á varnargarðana eins og staðan er núna

„Við sjáum ekki að eins og staðan er núna að það muni reyna mikið á varnargarðanna. Þetta rennur í eldri hraunkanti sem ýtir því frá þannig það er mjög gott. Svo erum við aðeins að sjá hve lengi þessi kraftur helst í því og hvað hann getur þá keyrt þessa hrauntungu langt vestur fyrir Grindavíkurveginn,“ segir Víðir.

Spurður hvort að hraunið ógni vatns- og háspennulögnum á svæðinu segir hann:

„Hituveitulögnin er mjög vel varin og það sama er með háspennulagnirnar sem eru þarna. Kaldavatnslögnin sem liggur til Svartsengis er líka þarna, hún er grafin en hún er viðkvæmari því hún er úr plasti að hluta til.“

„Það hefur reyndar runnið hraun yfir hana í fyrri atburðum og hún hefur staðið það af sér þannig við erum að vona að hún geri það líka í þetta skipti. En við erum með tilbúnar áætlanir ef kaldavatnslagnirnar fara upp á að koma köldu vatni aftur inn því það er forsenda allrar framleiðslu í Svartsengi,“ segir Víðir.

Horfa á næstu 12 tímana

Þá segir Víðir að hraunflæðið sé svipað og í seinasta gosi en að talið sé að það sé 1200-1500 rúmmetrar á sekúndu.

Hvað þyrfti krafturinn að haldast lengi í hraunflæðinu til að þessum innviðum, lögnum og varnargörðunum yrði ógnað?

„Þessar hraðfljótandi hrauntungur, ég myndi halda að það þyrfti að minnsta kosti 10-12 tíma til þess að þær færu að valda okkur verulegum vandræðum. Það sem er svo auðvitað erfitt að sjá fyrir er hvar gossprungan þrengist niður á einn stað eins og hún hefur gert og hvar meginhraunrennsli verður þá.

Þá erum við farin að sjá þetta þykkara hraun sem er seigara og tekur lengri tíma að renna en getur líka valdið meiri vandræðum út af magni og þrýstingi. Það er aftur á móti miklu lengri tíma mál fyrir okkur að sjá,“ segir Víðir og bætir við:

„Við erum núna að horfa á næstu 12 tímana og eftir það sjáum við betur hverju við eigum von á í því sem við köllum fasa tvö, þegar þetta apalhraun fer að renna.“

Grindavík ekki í hættu

Spurður hvort að almannavarnir hafi einhverjar áhyggjur af Grindavík og innviðum þar í kring segir hann:

„Nei, eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til þess að Grindavík eða innviðirnir rétt í kringum Grindavík séu í beinni hættu. Við vitum auðvitað að náttúran er ekki fyrirsjáanleg en eins og staðan er núna er ekkert hraun að renna til suðurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert