Getur valdið alvarlegum slysum að leggja á brautinni

Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, upplifir sitt fyrsta gos …
Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, upplifir sitt fyrsta gos í sem slökkviliðsstjóri, en hefur þó komið að átta gosum sem varðstjóri. mbl.is/Hermann Nökkvi

Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, stendur nú frammi fyrir sínu fyrsta eldgosi í nýju starfi. Hann tók við stöðunni í byrjun júní 2024 af Jóni Guðlaugssyni, sem hafði sinnt starfinu um árabil.

Eyþór er þó enginn nýgræðingur í þessum aðstæðum, þar sem hann hefur starfað í yfir 20 ár sem varðstjóri og tekið þátt í slökkvistörfum við öll eldgosin á Reykjanesskaga á þeim tíma.

Jón Guðlaugsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri, er þó enn til staðar til að veita ráðgjöf og stuðning.

„Jú, það er alltaf gott að hafa reynslubolta, sérstaklega eins og hann sem er búinn að vera hérna í mörg ár og hann er í raun enn starfandi. Hann verður okkur til stuðnings út þetta ár allavega og hann stekkur til ef eitthvað stórt gerist. Það er ómetanlegt fyrir okkur að hafa svoleiðis menn,“ segir Eyþór um viðveru Jóns.

Getur valdið alvarlegum slysum

Eyþór útskýrir að hlutverk Brunavarna Suðurnesja í slíkum aðstæðum sé fjölþætt.

„Við komum að aðgerðastjórn, styðjum við þar. Aðalhlutverk okkar er náttúrulega slökkvistarf og gróðureldar, svo er það auðvitað að tryggja öryggi íbúa,“ útskýrir hann, en Brunavarnir Suðurnesja hafa sinnt mikilvægu hlutverki í að veita öðrum viðbragðsaðilum eins og björgunarsveitinni stuðning.

Eyþór varar fólk við því að leggja bílum sínum á Reykjanesbrautinni og segir það geta valdið mikilli hættu.

„Þetta er stórhættulegt og erfitt að eiga við þetta, fólk er að leggja á brautinni og þetta getur valdið alvarlegum slysum,“ segir hann. Hann telur það vera áhyggjuefni, sérstaklega þar sem slíkt getur tafið viðbragðsaðila ef eitthvað kemur upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert