Gossvæðið mjög hættulegt og mikið sprungið

Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni í …
Margir hafa lagt leið sína að eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svæðið í kringum eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni er mjög hættulegt og mikið sprungið. Sérstaklega þegar fólk er illa búið og ekki með ljós í myrkrinu. 

Þetta segir Þorbjörg Pálsdóttir aðgerðastjórnandi í vettvangsstjórn í Grindavík. Fjöldi fólks lagði leið sína að gosinu og komu enn fleiri þegar tók að dimma, enda sjónarspilið meira þegar eldgosið lýsir upp næturhimininn.

Fólk á svæðinu eru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn sem Þorbjörg segir marga hverja vera að koma beint úr flugi.

Þó eldgosið sé nær Reykjanesbraut en önnur gos þá er …
Þó eldgosið sé nær Reykjanesbraut en önnur gos þá er dágóður spotti sem fólk þarf að fara til að sjá gosið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjög hvasst

Björgunarsveitir eru á svæðinu ásamt lögreglu til að upplýsa fólk hvar það má vera og gæta þess að það gangi ekki upp að gosinu.

Mjög hvasst er á svæðinu núna. „Hraunið er úfið og erfitt yfirferðar og þótt það virki eins og stutt sé frá Grindavíkurvegi þá er þetta dágóður spotti,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg segir ekki hafa komið upp nein stórfengleg vandamál og að fólk hafi sýnt því skilning þegar það er beðið um að snúa við.

„Flestir fara eftir fyrirmælum.“

Margir koma beint úr flugi og fara að gosstöðvunum.
Margir koma beint úr flugi og fara að gosstöðvunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gosið nær Reykjanesbraut en áður

Nálægt Grindavíkurvegi er smá hraunstallur þar sem fólk getur staðið. Gosið sést vel þaðan. Eins og vindáttin er núna er skjól frá rokinu á stallinum og reykmökkurinn fer út yfir hafið.

Fyrir neðan útsýnisstallinn keyra björgunarsveitarmenn eftir slóða og stöðva fólk ef það ætlar lengra.

Þetta eldgos er töluvert nær Reykjanesbraut en verið hefur og sést alveg vel þaðan. Lokunarpóstur á Grindavíkurafleggjara var færður aðeins neðar svo bílaumferð getur farið aðeins inn Grindavíkurveg og fólk lagt bílum þar. 

Björgunarsveitin Þorbjörn vaktar svæðið.
Björgunarsveitin Þorbjörn vaktar svæðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls ekki leggja við Reykjanesbrautina

Að sögn Þorbjargar verður vettvangsstjórn með vakt allan sólahringinn.

„Við erum að biðla til fólks að vera ekki að ganga að gosstöðvunum,“ segir Þorbjörg. Hún ítrekar að vel er hægt að sjá gosið frá Grindavíkurvegi.

Eitthvað hefur verið um að fólk leggi bílum í vegkanti við Reykjanesbrautina en það skapar stórhættu. „Sérstaklega þegar bílhurð er opnuð sem snýr út í umferðina,“ segir Þorbjörg.

Mjög hvasst hefur verið á Reykjanesskaga í dag.
Mjög hvasst hefur verið á Reykjanesskaga í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert