„Gúrkuæði“ Íslendinga vekur athygli erlendis

Landsmenn eru sólgnir í gúrkur.
Landsmenn eru sólgnir í gúrkur. Ljósmynd/Pexels

Mikil eftirspurn hefur verið eftir agúrkum á Íslandi undanfarnar vikur og hefur það vakið athygli fjölmiðla erlendis. Þannig hafa breska ríkisútvarpið, BBC, og bandaríska dagblaðið New York Times fjallað um æðið í gær og í dag. 

Morgunblaðið fjallaði einnig um hið svokallaða gúrkuæði í dag.

Ástæða gúrkuæðisins er sögð vera gúrkuæði á samfélagsmiðlinum TikTok. Fer þar fremst í fararbroddi samfélagsmiðlastjarnan Logan Moffit sem hefur verið duglegur að deila uppskriftum að gúrkusalati. 

Uppskriftin fræga inniheldur: Rifnar gúrkur, sesamolíu, hvítlauk, hrísgrjónaedik og chilliolíu.

Gúrkuskortinn er ekki einungis að rekja til TikTok

Á vefmiðli New York Times er einnig fjallað um agúrkuskort og agúrkuæði landans. Þar eru m.a. birt svör Kristínar Lindu Sveinsdóttur, markaðsstjóra Sölufélags garðyrkjubænda, við spurningum miðilsins.

Hún segir að grænmetisbændur framleiði agúrkur í lotum. Það hitti svo á að gúrkuæðið spratt upp á hvíldartíma uppskerunnar, sem útskýrir að einhverju leyti skortinn í verslunum.

Íslenskir grænmetisbændur hafa ekki náð að halda í við eftirspurnina. 

Gunnlaugur Karlsson, forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, sagði í samtali við Morgunblaðið að fleiri þættir en samfélagsmiðlar spila inn í vinsældir gúrkunnar. Hún hefur ekki hækkað í verði nýlega og er almennt séð ódýr matvara.

Þá segir hann jafnframt að íslenska þjóðin sé smám saman að auka neyslu á íslensku grænmeti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert