Hægðalosandi smakk óhentugt fyrir hlaup

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður haldið á morgun.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður haldið á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að fæstir hlauparar séu að leita eftir því að losa vatn daginn fyrir hlaup, sérstaklega ekki á hlaupadegi,“ segir Hilmar Jónsson í samtali við mbl.is.

Hilmar vakti athygli fólks á því í Facebook-hópnum Hlauparar á Íslandi að boðið væri upp á að smakka hægðalosandi vörur við afhendingu gagna fyrir Reykjavíkurmaraþonið í Laugardalshöll.

„Mér finnst þetta mjög óheppilegt því maður fær niðurgang af þessu. Þetta er vatnslosandi,“ segir Hilmar en Reykjavíkurmaraþonið fer fram í fyrramálið.

Hefði viljað vita áður en hann smakkaði

Hlauparar í Facebook-hópnum hafa tekið undir með honum og sumir sent honum persónulega skilaboð og þakkað honum fyrir ábendinguna.

„Á heimasíðunni er þetta alveg heiðarlegt, þau segja að þetta sé vatnslosandi og hægðalosandi. Ég hefði bara viljað vita þetta áður en ég smakkaði.“

Hilmar lét Íþróttabandalag Reykjavíkur vita af þessu og segist ekki hafa fengið nein viðbrögð frá þeim.

Ekki illa meint

Hann segist hafa fengið ábendingu um að maður ætti ekki að prófa neitt nýtt dagana fyrir hlaup og segist taka það til sín.

Spurður hvort þetta setji ekki strik í reikninginn hjá einhverjum hlaupurum segist hann telja svo vera.

„Ég held samt að þetta sé vel meint hjá þeim að markaðssetja þetta efni,“ segir Hilmar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert