Hleypur í minningu litlu systur sinnar

Katrín Una Sigurðardóttir með litlu systur sína, Elvíru Maríu, í …
Katrín Una Sigurðardóttir með litlu systur sína, Elvíru Maríu, í fanginu. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Una Sigurðardóttir, níu ára Siglfirðingur, ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun. Hleypur hún í skemmtiskokkinu til minningar um systur sína, Elvíru Maríu, sem lést í fyrra eftir baráttu við bráðahvítblæði.

Í samtali við mbl.is segir móðir Katrínar, Sigrún Sigmundsdóttir, að Katrín sé opin, fjörug og skapandi manneskja og sé rosalega peppuð fyrir komandi hlaupi. Þá sé hún mjög áhugasöm um hvað hún sé búinn að safna miklum pening en Katrín tók sjálf ákvörðun um að hlaupa fyrir góðgerðarfélagið Mía Magic.

„Hún var alveg harðákveðin um leið og hún sá auglýsingu fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa fyrir Míu Magic,“ segir Sigrún.

Góðgerðafélag sem nær vel til barnanna

Góðgerðarfélagið einbeitir sér að því að gleðja langveik börn og foreldra þeirra ásamt því að gefa út fræðslubækur og segir Sigrún að mikill stuðningur hafi komið frá félaginu eftir að dóttir hennar Elvíra greindist með bráðahvítblæði, en eitt af því sem Mía Magic gerir svo vel er að ná til barnanna.

Fengu Elvíra og Katrín t.a.m. báðar svokallað Míubox frá félaginu, en hvert Míubox er sniðið að hverri manneskju sem fær það og inniheldur ýmis hluti. Hafi t.d. Elvíra fengið Míubangsa sem hún sleppti varla af takinu að sögn Sigrúnar.

Að sögn Sigrúnar sleppti Elvíra María vart takinu af Míubangsanum …
Að sögn Sigrúnar sleppti Elvíra María vart takinu af Míubangsanum sínum sem hún fékk frá Míu Magic. Ljósmynd/Aðsend

„Katrín fékk líka þegar Elvíra fékk Míu box og þetta er það sem stendur mest upp úr hjá henni. Nálgunin hjá Míu Magic nær bara mjög vel til barnanna þannig það svolítið situr eftir hjá þeim. Þessi kærleikur og Míubangsinn og bækurnar. Þetta er alveg hápunkturinn hjá henni. Hún var ekki að spá í að hlaupa fyrir neitt annað.“

Segir Sigrún að félagið muni alltaf eiga sérstakan stað í hjörtum allra í fjölskyldunni enda hafi félagið staðið þétt við bak fjölskyldunnar á mjög krefjandi tímum. Kveðst hún hafa kynnst stofnanda Míu Magic, Þórunni Evu G. Pálsdóttur, mjög vel á sínum tíma og hafi Þórunn verið ótrúlegur stuðningur fyrir fjölskylduna. Nefnir Sigrún að það geri líka hlaup Katrínar persónulegra fyrir vikið.

Kynnti félagið fyrir bekknum sínum

Greinilegt er að góðgerðarfélagið skiptir Katrínu miklu máli. Nefnir Sigrún að Katrín hafi meira að segja verið með kynningu um Míu Magic fyrir bekkinn sinn í skólanum sínum á Siglufirði.

„Hún var með glærukynningu og sagði frá félaginu. Þetta var tækifæri fyrir hana til að segja bekknum sínum frá hlut sem að studdi okkur í gegnum þetta allt saman. Það gaf henni mjög mikið að geta sagt frá þessu. Þetta var mjög fallegt.“

Sigrún segir að Katrín hafi svo leyft bekknum sínum að skoða fræðslubækurnar, Míubangsann, lyklakippuna, lyklabandið og allt sem að hún hafði fengið frá félaginu.

Katrín Una hélt kynningu um Míu Magic fyrir bekkinn sinn …
Katrín Una hélt kynningu um Míu Magic fyrir bekkinn sinn á Siglufirði. Ljósmynd/Aðsend

Þurftu að flytja tímabundið frá Siglufirði

Sigrún undirstrikar þó mikilvægi annarra félaga og stofnanna á þeim krefjandi tímum sem fjölskyldan gekk í gegnum. Þó Katrín sé að hlaupa fyrir Míu Magic vill Sigrún einnig koma á framfæri þeirri ótrúlegu aðstoð sem fjölskyldunni barst frá stofnunum líkt og Barnaspítala Hringsins og Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna (SKB). Hafi fjölskyldan til dæmis fengið íbúð í Reykjavík í gegnum SKB eftir að hún þurfti að flytjast frá Siglufirði tímabundið vegna veikinda Elvíru.

„Við búum á Siglufirði og Elvíra greinist 3. desember 2021 og við förum alveg suður og förum ekki heim fyrr en í júní 2022 í viku. Svo kom önnur svona dvöl og við vorum að komast heim eitthvað aðeins á milli en meira og minna vorum við fyrir sunnan,“ segir Sigrún og nefnir jafnframt að á þeim tíma hafi Katrín verið eftir hjá fjölskyldu og vinum á Siglufirði. Ekki hafi verið hægt að taka hana úr skóla á meðan systir hennar þarfnaðist umönnunar í Reykjavík og því var hún mikið frá þeim á meðan.

Ótrúlegur stuðningur í litlum bæjarfélögum

Þá segir Sigrún, sem er einnig vinnur í grunnskólanum á Siglufirði, að mjög góð samskipti og gott samstarf hafi verið á milli fjölskyldunnar og skólans. Til að mynda hafi þau fengið með námsefni þegar Katrín fékk tækifæri til að koma í heimsókn.

„Ég vinn sjálf í grunnskólanum á Siglufirði þannig að þetta var bara mitt fólk að hugsa um stelpuna mína og það hjálpaði gífurlega mikið. Þetta er það sem maður finnur fyrir þegar maður er frá litlu bæjarfélögunum, svona stuðningur. Það er ótrúlegt.“

Erfiðir og krefjandi tímar

Lyfjameðferð Elvíru Maríu tók rúmlega hálft ár og skilaði því miður ekki þeim niðurstöðum sem að fjölskyldan vonaðist eftir. Var fjölskyldunni sagt að Elvíra þyrfti að fara í beinmergskipti.

Við tóku erfiðir tímar í Svíþjóð þar sem Elvíra fór í gegnum beinmergskipti og dvaldi fjölskyldan þar í þrjá og hálfan mánuð. Hafi þar Katrín Una náð að komast í heimsókn sem Sigrún segir að hafi verið ómetanlegt.

Fjölskyldan sneri heim frá Svíþjóð í október en var það svo í byrjun janúar 2023 að fjölskyldan fékk staðfest að veikindi Elvíru hefðu snúið aftur.

Heiðra minningu Elvíru Maríu

Elvíra María lést 16. júní í fyrra eftir hetjulega baráttu sína við bráðahvítblæði aðeins tveggja og hálfs árs og segir Sigrún að stofnaður hefur verið minningarsjóður í hennar nafni.

„Þetta er gert til þess að heiðra minningu hennar og styðja við góðgerðarfélög og stofnanir sem að voru til staðar fyrir okkur eins og Barnaspítalann og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og trúðavaktin á Barnaspítalanum sem ekki margir vita af. Það komu trúðar einu sinni í viku og heimsækja krakkana. Allskonar svona sem að snerti okkur sem okkur langar að styrkja,“ segir Sigrún og nefnir jafnframt að minningarsjóðinn megi finna á Facebook.

Þar eru seld prjónuð hárbönd með regnbogalitaða slaufu sem Sigrún segir að sé mjög mikið í anda Elvíru Maríu.

„Hún var alltaf voða litrík og hress og skemmtileg og bara brosandi og hlæjandi í gegnum allt.“

Finna má minningarsjóð um Elvíru Maríu á Facebook. Þar er …
Finna má minningarsjóð um Elvíru Maríu á Facebook. Þar er hægt að kaupa prjónuð hárbönd sem Sigrún segir vera í anda Elvíru Maríu. Ljósmynd/Aðsend

Hjálpar að gefa tilbaka

Segir Sigrún að hárböndin hafi verið til að safna pening og ætlunin sé að gera fleira. Það hjálpi að gefa tilbaka til þeirra sem stóðu þétt við bak fjölskyldunnar en lýsir Sigrún Barnaspítalanum sem öðru heimili fjölskyldunnar þegar Elvíra María glímdi við veikindi sín.

„Þetta var bara orðið fjölskylda manns, fólkið þarna,“ segir Sigrún og tekur jafnframt fram að hún vilji koma endalausum þökkum til allra á Barnaspítalanum.

„Yndislegt starfsfólk og læknateymi og allt sem að tengist þessu. Það er ekki hægt að lýsa því.“

Hægt er að heita á Katrínu Unu hér. Hægt er að kynna sér minningarsjóð Elvíru Maríu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka