Hraða taumnum tókst ekki að valda skaða

Eins og staðan er núna rennur ekkert hraun úr eldgosinu við Sundhnúkagíga í átt að varnargarðinum við Svartsengi en vinna heldur áfram í dag við að stækka hann. Hraunið rennur nánast allt til norðurs og er Grindavíkurvegur því ekki í neinni hættu. Grindavíkurbær er sömuleiðis ekki í hættu.

Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.

„Já, við erum nokkuð sátt með stöðuna þar,“ segir Víðir, spurður hvort Svartsengi og Grindavíkurbær séu örugg.

Fylgst verður vel með hraunstrauminum í dag í samstarfi við vísindamenn og erum við væntanlega komin í fasa 2 í eldgosinu þar sem hægir verulega á öllu hraunstreymi, hraunið fer að þykkna, bunkast upp og skríða síðan fram. Því fylgir annað viðbragð, að sögn Víðis.

Eldgosið hófst í gærkvöldi.
Eldgosið hófst í gærkvöldi. Kort/mbl.is

Raflagnir ekki í hættu

Spurður út í muninn á þessu eldgosi og því síðasta segir hann að staðsetningin hafi verið heppilegri í þetta sinn.

„Þessi hraði taumur sem kemur í upphafi náði ekki á fyrstu klukkustundunum að skemma neitt. Eins og við sáum í síðasta gosi fóru rafmagnslagnir og annað slíkt á fyrstu klukkutímunum og það hefur ekki verið neitt þannig núna og það er jákvætt,“ segir Víðir og nefnir að töluvert langt sé í að raflagnir séu í hættu.

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Óttar

Engin þörf á hraunkælingu

Hann segir enga þörf á hraunkælingu eins og staðan er núna. Viðbúnaður vegna mögulegrar hraunkælingar var talsverður syðst í Svartsengi en ekkert hefur reynt á það. Búnaðurinn verður því færður ef eitthvað kemur upp norðanmegin en engar áætlanir eru uppi um hraunkælingu á næstunni.

Dökkur reykur steig upp í eldgosinu bæði í nótt og í morgun og segir Víðir að þarna hafi greinilega átt sér stað samspil við grunnvatn líkt og gerðist í maí í gosinu í Hagafelli þar sem miklar gufusprengingar urðu með hvítum og dökkum reyk.

Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu, bætir Víðir við og segir ekkert hafa sést á radar sem gefur til kynna einhvern skaða.

mbl.is/Eyþór
mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert