Vindur torveldaði slökkvistarf í Hoftúni norðan Stokkseyrar síðdegis í gær þegar eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði þar.
Eldurinn breiddist hratt út og náði að leika um húsið og nærliggjandi svæði.
„Svona brunar gerast allir hraðar þegar það er mikill vindur og loft nær að leika um, ég tala nú ekki um fari inn í rýmin," segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.
Hann bætir við að tjónið hafi verið mikið, bæði á húsinu sjálfu og á þeim tækjum sem voru í kringum það, þar á meðal bílum sem urðu fyrir skemmdum.
Pétur segir að um sé að ræða stærsta bruna ársins í umdæmi Brunavarna Árnessýslu og bætir við að slökkviliðið fái á milli 300 og 500 útköll á ári, en verkefnin séu misstór.
Allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi, Þorlákshöfn og Hveragerði barðist við eldinn við krefjandi aðstæður.
„Húsið var alelda þegar slökkviliðið mætti á vettvang,“ segir Pétur.
„Það var ekki auðvelt að nálgast vatn á svæðinu og þess vegna fengum við tankbíla frá Selfossi, Þorlákshöfn og Hveragerði til að aðstoða við slökkvistarfið, auk auðvitað slökkviliðsmanna þaðan.“
Þrátt fyrir áskoranirnar sem fylgja slíkum eldsvoðum segir Pétur að Brunavarnir Árnessýslu séu vel í stakk búnar til að takast á við svona aðstæður.
„Við erum mjög vel tækjum búin, með mikinn dælukraft og mikla þekkingu innan liðsins. Þannig að við búum mjög vel, við erum mjög auðug af mannskap og tækjum,“ segir hann.
Tilkynnt var um brunann klukkan 17.15 og var fyrsti bíll slökkviliðsins kominn á vettvang um 15 mínútum síðar.
„Þetta er auðvitað ein af áskorunum í dreifbýli og líka fyrir íbúa dreifbýlis, að það er lengra í hjálpina. Þú þarft að bíða lengur eftir hjálpinni ef það kviknar í og þeim mun mikilvægara að huga að eigin brunavörnum fyrir fólk,” segir Pétur.
Rannsókn á upptökum eldsins stendur enn yfir og er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir rannsóknin sé í fullum gangi og að enn sé engin niðurstaða komin.
Slökkviliðið hefur lokið störfum á vettvangi, en Pétur bendir á að vinnu slökkviliðsmanna sé langt frá því að vera lokið eftir sjálft slökkvistarfið.
„Það þarf að þvo allan búnað og fara yfir og þvo allar slöngur,“ útskýrir hann og nefnir að þetta gæti tekið langan tíma, jafnvel næstu daga.
„Slökkvistarf er eitt en vinna slökkviliðs heldur síðan áfram yfirleitt langt fram eftir nóttu og jafnvel næsta dag og næstu daga,“ segir Pétur.