Myndir: Þegar flætt inn í mörg hús á Siglufirði

Á Siglufirði hefur úrkoma mælst 150 mm á síðastliðnum sólarhring.
Á Siglufirði hefur úrkoma mælst 150 mm á síðastliðnum sólarhring. Ljósmynd/Aðsend

„Við eigum eftir að ná utan um þetta. Það eiga örugglega eftir að koma inn fleiri tilkynningar í kvöld,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri á Siglufirði, um fjölda heimila sem flætt hefur inn í.

Síðasta sólarhringinn hefur verið gríðarleg úrkoma á Siglufirði og hefur hún mælst 150 mm síðastliðinn sólarhring. Í ástandi sem þessu segir Sigríður eðlilegt að eitthvað láti undan. 

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna úrkomu, vatnavaxta og ofanflóðahættu. 

Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri á Siglufirði.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri á Siglufirði. Ljósmynd/Aðsend

Hvanneyraáin vöktuð

Sigríður sat fund með viðbragðsaðilum um fimmleytið og annar fundur var á áætlun klukkan sjö í kvöld.

„Við erum alltaf að taka stöðutékk,“ segir Sigríður og bætir við að ljóst sé að vakta þurfi Hvanneyraánna í kvöld, en áin liggur fyrir ofan bæinn og niður að sundlauginni. Ljóst þykir að vakta þurfi Hvanneyraánna í nótt.

„Við erum orðin dálítið hrædd við hana. Hún er orðin ofboðslega vatnsmikil.“

Vegurinn frá Ketilási að Siglufirði er lokaður. Sigríður segir það mesta mildi að tekin hafi verið ákvörðun um að loka veginum þar sem féll skriða á veginn fyrir ofan Sauðanes rétt eftir lokunina. 

Mikið vatn er á eyrinni á Siglufirði.
Mikið vatn er á eyrinni á Siglufirði. Ljósmynd/Aðsend

Tjónið verði umtalsvert

Þeir sem eiga hús á eyrinni svokölluðu á Siglufirði hafa verið beðnir um að huga að kjöllurum því flætt geti inn í þá. Aðspurð segir Sigríður að flestir sem eiga hús í bænum en búsettir eru annars staðar skilji eftir lykla hjá heimafólki sem lítur eftir húsunum fyrir þá.

Sigríður vill koma því á framfæri að allir viðbragðsaðilar, starfsmenn bæjarins, slökkviliðið og þeir sem komið hafa og aðstoðað hafa staðið sig gríðarlega vel. „Og bjargað því sem hefði getað farið enn verr.“

„Ljóst er að það mun verða talsvert tjón. Við vitum það. En ekki er hægt að ímynda sér það á þessari stundu.“

Miklir vatnavextir eru í ám norðan heiða og fylgjast þarf …
Miklir vatnavextir eru í ám norðan heiða og fylgjast þarf vel með. Ljósmynd/Aðsend

Aðstoð frá slökkviliði Akureyrar

Daníel Páll Víkingsson, varaslökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, átti ekki mikinn tíma aflögu fyrir viðtal, enda mikið álag á slökkviliðinu í kvöld. 

Aðstoð barst frá Akureyri nú síðdegis þegar dælubíll slökkviliðsins þaðan kom til Siglufjarðar.

Daníel segir að allir dælubílar slökkviliðsins séu í notkun og allar lausar dælur sem eru til boða. Bilun varð í dælubúnaði í dag sem orsakaði bilun í fráveitubúnaði og gerði það aðstæður erfiðari um tíma. 

Að hans sögn er ástandið svipað nú og seinnipartinn og að frekar sé verið að bæta í úrkomuna en hitt. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert