Ný sprunga opnast til norðurs

Ný gossprunga hefur opnast rétt norðan við gossprunguna sem fór að gjósa í kvöld. Nýja sprungan er um 1 km að lengd og er því heildarlengd gossprungunnar því um 5 km.

Á meðfylgjandi myndskeiði, sem tekið var af ljósmyndara mbl.is í flugi Gæslunnar nú fyrir skömmu, má sjá nýju sprunguna í kjölfar fyrri sprungunnar. Er nýja sprungan ofarlega fyrir miðju í myndskeiðinu.

Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að minni virkni sé í nýju sprungunni en þeirri sem var fyrir.

„Við vorum að fylgjast með þessu svæði því aflögunarmælar og jarðskjálftamælar sýndu að eitthvað var að gerast,“ segir hún. Spurð hvort áfram sjáist eitthvað á þeim mælum segir Sigríður að áfram sýni aflögunarmælar að eitthvað geti gerst áfram á meðan að dregið hefur úr skjálftavirkni síðan þessi sprunga opnaðist.

Myndir úr flugi Landhelgisgæslunnar nú á öðrum tímanum í nótt. …
Myndir úr flugi Landhelgisgæslunnar nú á öðrum tímanum í nótt. Nýja sprungan til norðurs er til vinstri á myndinni. Ljósmynd/Almannavarnir

Það kom því ekkert rosalega á óvart að sprungan opnaðist þarna til norðurs að sögn Sigríðar, en hún segir staðsetninguna einnig góða, því það sé minni hætta á tjóni fyrir innviði þegar sprungan er svona norðarlega.

Þá nefnir hún að enn sé nokkuð langt í Reykjanesbrautina, eða 7-8 km og því slatti í að það verði einhver hætta fyrir þann veg.

Sigríður segir að ekki sé enn komið í ljós hver áhrifin af nýju sprungunni verði á gosið eða hraunflæðið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert