„Óafsakanlegt“ og „óviðunandi“

Umboðsmaður barna segir það ótækt að ráðherrann Ásmundur Einar Daðason …
Umboðsmaður barna segir það ótækt að ráðherrann Ásmundur Einar Daðason sinni ekki lögbundnum skyldum sínum. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður barna segir að ekki verði unað við óvissuna undir stjórn ráðherrans Ásmundar Einars Daðasonar.

Þetta segir í nýju bréfi frá embættinu sem stílað er á barna- og menntamálaráðherra og er reifað hér fyrir neðan.

Bréfið sendir umboðsmaðurinn Salvör Nordal í kjölfar svara sem bárust frá ráðherranum á mánudag, á síðasta degi frests sem hún gaf um leið og hún krafði hann um svör þann 23. júlí.

Svör Ásmundar Einars slógu ekki á áhyggjurnar

Spurði umboðsmaður ráðherra hvort til staðar væri skýr og heild­stæð áætl­un um inn­leiðingu á nýju sam­ræmdu náms­mati og spurði einnig hvenær áætlað væri að það yrði innleitt að fullu.

Fylgdi erindi umboðsmanns í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins í sumar, sem vakið hefur háværa umræðu um menntamál í samfélaginu.

Umræðu sem teygt hefur anga sína víða.

Í brennidepli þessarar umfjöllunar hafa þó verið tafir á innleiðingu þessa nýja námsmats, óljós svör skólayfirvalda um hvað í því muni felast og ekki síst sú mikla gagnrýni sem ráðherrann hefur sætt fyrir að gefast upp á samræmdu könnunarprófunum án þess að koma með nokkuð í þeirra stað.

Um þetta hverfðist fyrirspurn umboðsmanns eins og áður sagði.

Aftur á móti er fátt nýtt að finna í svörum ráðherra og tekur umboðsmaður sérstaklega fram að svörin hafi ekki slegið á áhyggjur embættisins.

Ásmundur Einar tók við menntamálaráðuneytinu af Lilju Alfreðsdóttur árið 2021. …
Ásmundur Einar tók við menntamálaráðuneytinu af Lilju Alfreðsdóttur árið 2021. Síðan þá hefur hann trassað skil á lögbundnum skýrslum og virt áminningar opinberra stofnana að vettugi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stangast á við fullyrðingar ráðherra fyrir viku

Svör ráðherra telja um eina blaðsíðu og bera þess nokkur merki að hafa verið unnin í flýti, einkum þegar litið er til þess fjögurra vikna frests sem umboðsmaður gaf.

Við lesturinn vekur mesta athygli að tímasetning innleiðingar skyldubundins námsmats stangast á við þær upplýsingar sem ráðherra lét fylgja þegar hann kynnti frumvarpsdrögin til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda, fyrir einungis viku síðan.

Sagði þar eftirfarandi, föstudaginn 16. ágúst:

„Ákvæði til bráðabirgða við lög um grunnskóla, sem lagt er til í frumvarpinu, gerir ráð fyrir því að þetta samræmda námsmat standi öllum skólum til boða skólaárið 2025-2026 og verði tilbúið til skyldubundinnar notkunar um allt land skólaárið 2026-2027.“

Svo, í svari ráðherra til umboðsmanns þremur dögum síðar, 19. ágúst:

„Megindrættir áætlunarinnar eru að skólaárið 2025/2026 verði skyldubundið samræmt námsmat haldið fyrir 4., 6. og 9. bekk í íslensku (lesskilningi) og stærðfræði.“

Skyldubundnu námsmati flýtt í skjóli nætur

Svo virðist því sem áformum um skyldubundið námsmat hafi verið flýtt um heilt skólaár í skjóli nætur svo að segja, eða í það minnsta yfir helgi.

Textanum hefur raunar einnig verið breytt á samráðsgáttinni og rímar nú við þau svör sem umboðsmanni voru gefin á mánudag.

Engar skýringar hafa fengist á þessu misræmi frá ráðuneytinu, þrátt fyrir umleitan mbl.is. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem skólayfirvöld eru margsaga um þessi áform sín.

Menntamálaráðuneytið er nú til húsa að Borgartúni 33.
Menntamálaráðuneytið er nú til húsa að Borgartúni 33. mbl.is/Hákon

Svarar ekki spurningu umboðsmanns

Í svörunum til umboðsmanns segir einnig að samhliða vinnu við drög að frumvarpi um fyrirhugaðar breytingar hafi verið unnið að drögum að tímalínu og innleiðingaráætlun, sem séu ætluð til umræðu og samráðs.

Fyrsta árið, þ.e. skólaárið 2025-2026, sé gert ráð fyrir stuðningi ráðuneytisins við innleiðingu skyldubundna námsmatsins og að metin verði þörf fyrir svigrúm og útfærslur á því skólaári.

Um þetta segir umboðsmaður:

„Af svari ráðuneytisins má ráða að ekki liggi fyrir skýr og heildstæð innleiðingaráætlun á nýju samræmdu námsmati fyrir grunnskóla. Fram kemur að enn standi yfir samráð um þætti sem þurfi að liggja fyrir svo unnt sé að ganga frá ítarlegri áætlun en ekki er greint frá því hvaða þættir það eru sem þurfi að liggja fyrir.

Ráðuneytið svaraði enn fremur ekki þeirri spurningu umboðsmanns um hvenær áætlað sé að nýtt námsmat verði innleitt að fullu, að öðru leyti en því að fjalla þurfi um málið á Alþingi.“

Ábyrgðin liggur hjá Ásmundi Einari

Umboðsmaður kveðst hafa fullan skilning á því að innleiðing á samræmdu námsmati sé viðvarandi verkefni sem þurfi að meta og endurskoða reglulega.

„Það breytir því hins vegar ekki að leggja þarf upp með skýra og heildstæða sýn og raunhæfa áætlun um innleiðingu þar sem m.a. er gerð grein fyrir markmiðum og skrefum innleiðingar, jafnvel þó slík áætlun geti tekið breytingum.

Að mati umboðsmanns barna er óafsakanlegt að ekkert samræmt námsmat hafi tekið við af samræmdum könnunarprófum eftir að þau voru síðast haldin árið 2021 og að enn ríki óvissa um hvenær áætlað sé að ljúka við innleiðingu á nýju samræmdu námsmati,“ segir í bréfinu.

„Sú ábyrgð liggur hjá ráðherra.“

Að mati umboðsmanns barna er óafsakanlegt að ekkert samræmt námsmat …
Að mati umboðsmanns barna er óafsakanlegt að ekkert samræmt námsmat hafi tekið við af samræmdum könnunarprófum. mbl.is/Hari

Óvissan „með öllu óviðunandi“

Salvör bendir einnig á að samræmt námsmat þjóni mikilvægu hlutverki, sem er að veita nemendum upplýsingar um sína stöðu og varpa ljósi á stöðu skólakerfisins í heild.

Nýta beri niðurstöður matsins til að bæta þjónustu við nemendur og gæði grunnskólamenntunar.

„Sú óvissa sem hefur skapast varðandi samræmt námsmat, á kostnað grunnskólabarna og gæða skólastarfs, er með öllu óviðunandi,“ skrifar umboðsmaður.

Þess má hér geta að gangi áform ráðherrans eftir, og skyldubundið námsmat verði innleitt skólaárið 2025-2026, þá munu sex skólaár hafa liðið án þess að nokk­urt heild­stætt sam­ræmt mat hafi farið fram á hæfni ís­lenskra grunn­skóla­barna.

Á sama tíma hef­ur frammistaða barnanna hrunið í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og inn­an skóla­kerf­is­ins er ekki bú­ist við að þeirri þróun verði snúið við í bráð.

Endurtekinn trassaskapur Ásmundar Einars

Þar með er ekki öll sagan sögð.

Í erindi sínu 23. júlí óskaði umboðsmaður einnig eftir upplýsingum um hvenær skýrsla um framkvæmd skólahalds í grunnskólum yrði lögð fyrir Alþingi.

Ásmundur Einar hefur í nokkur ár trassað að skila þeirri skýrslu, sem honum bar lögum samkvæmt að leggja fyrir Alþingi vorið 2022.

Þegar það var ekki gert vöknuðu áhyggjur umboðsmanns, sem sendi ráðherranum erindi í apríl það ár. Um mánuði síðar svaraði ráðherrann og kvaðst myndu skila skýrslunni fyrir lok þess árs.

Það stóðst ekki og rúmum tveimur árum síðar hefur ráðherra ekki enn lagt skýrsluna fyrir Alþingi, eins og umboðsmaður bendir á í nýju bréfi sínu.

Þessi vanskil eru heldur ekki eina dæmið um hvernig Ásmundur Einar hefur vanrækt lögbundnar skyldur sínar og virt áminningar opinberra stofnana að vettugi.

„Ótækt“ að ráðherra sinni ekki lögbundnum skyldum

Í svörum ráðherra á mánudag er fullyrt að hann hyggist leggja fram skýrsluna í september þegar þing kemur aftur saman.

„Það er áríðandi að svo verði, enda ótækt að ráðherra standi ekki skil á lögbundnum skyldum sínum og mikilvægt að löggjafarvaldinu sé gert kleift að sinna því hlutverki sínu, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit,“ skrifar umboðsmaður.

„Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir umboðsmanni rétt að koma því á framfæri að svar mennta- og barnamálaráðuneytisins við erindi umboðsmanns hefur ekki slegið á áhyggjur embættisins af innleiðingu á nýju samræmdu námsmati og eftirliti ráðherra með framkvæmd skólastarfs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert