Ógnuðu börnum í Hafnarfirði og höfðu af þeim fé

Ungir drengir hafa verið að ógna börnum í Hafnarfirði að …
Ungir drengir hafa verið að ógna börnum í Hafnarfirði að undanförnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan í Hafnarfirði hefur á undanförnum dögum haft afskipti af ungum mönnum sem hafa ógnað drengjum, hótað að nota hnífa, stolið af þeim fatnaði og krafið þá um að millifæra fé í gegnum farsíma þeirra.

„Það er hópur, um fimm ungra manna, sem hefur verið að ganga að krökkum og verið með hótanir um líkamsmeiðingar og að krefjast þess að fá millifærslur sem þeim hefur tekist að fá í einhverjum tilfellum,“ segir Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri í samtali við mbl.is.

Þrjú atvik hafa átt sér stað á undanförnum dögum, við Hraunvallaskóla, Víðistaðatún og við verslunarmiðstöðina Fjörð, þar sem mennirnir réðust að börnum en Sævar segir lögregluna vera að vinna með nokkur mál sem tengist þessum árásarhópi. Hann segir að þessir ungu menn hafi verið í Hafnarfirði undanfarið en þeir hafi verið um allt höfuðborgarsvæðið að hrella krakka með þessum hætti.

Hræðilegt fyrir krakka að lenda í þessu

„Það er hræðilegt fyrir krakka að lenda í þessu og við lítum á þessi mál mjög alvarlegum augum. Það verða allir óöruggir og foreldrar óttast um börn sín þegar þau eru úti á kvöldlagi. Alla vikuna hefur lögreglunni borist kærur vegna þessara mála,“ segir Sævar.

Sævar segir að hluti árásarhópsins séu drengir sem eru ósakhæfir og þeirra mál séu þar með unnin öðruvísi. Hann segir að lögreglan hafi handtekið og yfirheyrt þessa aðila og að mál þeirra séu í eðlilegum farvegi en lögreglan hefur til að mynda skoðað myndefni sem henni hefur borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert