Ók fram af kanti og lenti á annarri bifreið

Lögregla var í dag send með forgangi vegna bílveltu í hverfi 104. Þar hafði ökumaður ekið fram af háum kanti á bílastæði með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti ofan á þakinu á annarri bifreið sem lagt var fyrir neðan og endaði svo á hliðinni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Ekki urðu nein slys á fólk en báðar bifreiðar eru talsvert skemmdar.

Alls er 92 bókuð mál í kerfum lögreglu frá kl. 5 til 17 í dag.

Í morgunsárið stöðvaði lögregla ökumann sem reyndist ölvaður við akstur. Eftir hefðbundið ferli á lögreglustöð var honum sleppt. Nokkrum klukkutímum síðar var tilkynnt um ölvaðan ökumann í öðru sveitarfélagi. Reyndist sami aðili á ferð og var hann því handtekinn tvisvar á einum degi vegna ölvunaraksturs.

Flestir skólar á höfuðborgarsvæðinu hófust í dag og sinnti lögregla í morgunsárið virku eftirliti með ökumönnum í og við leik- og grunnskóla, verkefni sem sinnt er allt skólaárið.

Til að tryggja öryggi barna sem nú ganga í skólann eftir sumarfrí hvetur lögregla alla ökumenn til að flýta sér hægt og aka varlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert