Sæþór Már Hinriksson
Ólíklegt er að Skaftárhlaupið sem nú er í gangi muni valda skemmdum á innviðum, að mati Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Hann segir stöðuna nokkuð stöðuga og að vatnsmagnið í Skaftá hafi haldist svipað undanfarna daga.
„Við höfum engar áhyggjur af þessu flóði eins og er,“ segir Böðvar og bætir við að það megi bætast talsvert við til þess að hafa þurfi áhyggjur af því að það fari að skemma innviði.
Hlaupið hófst 20. ágúst og er talið koma úr vestari katli Skaftárjökuls, þó að það sé ekki staðfest. Vatnsmagnið hefur verið stöðugt en Böðvar segir að það megi búast við að þetta verði í einhvern tíma svona.
Hann nefnir að þótt vatnsmagnið aukist lítillega, sé ólíklegt að hlaupið muni valda miklum skemmdum. „Alla vega eins og það er núna,“ segir hann en tekur fram að fylgst verði náið með framgangi hlaupsins.
„Þetta er atburður sem er í gangi og svo þurfum við aðeins að sjá betur framþróunina, hvort það gerist eitthvað í framhaldinu,“ segir Böðvar.