Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú hópsýkingu sem kom upp í skála á gönguleið Laugavegar. Ekki er vitað um upprunastað sýkingarinnar.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir að enn sé óvitað hve margir hafa veikst og lögregla sé nú að rannsaka það.
Hvar kemur þetta upp?
„Við erum ekki með upprunastaðinn alveg kláran en þetta kemur upp í skála á gönguleið Laugavegs,“ segir Sveinn.
Lögreglan gat ekki veitt nánari upplýsingar að svo stöddu.
Um er að ræða aðra hópsýkinguna á skömmum tíma á Suðurlandi en Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakaði hópsýkingu sem kom upp á Rjúpnavöllum í Rangárþingi ytra fyrr í ágúst.
Þar lá grunur um að hópsýkingin væri af völdum E.coli-bakteríunnar og var síðar greint frá að minnst sextíu náttgesta á Rangárvöllum hafi veikst.
Rannsókn málsins leiddi síðar í ljós að nóróveira greindist hjá a.m.k. sex einstaklingum.