Sigurður: „Er þetta Samfylkingin?“

Sigurður Ingi sagði í nýjasta þætti Þjóðmála að Kristrún hefði …
Sigurður Ingi sagði í nýjasta þætti Þjóðmála að Kristrún hefði síðustu tvö ár verið að taka upp stefnu Framsóknar. Samsett mynd/Óttar/Eggert

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur „hent til hliðar“ mörgum af lykilmálum flokksins og formaður Framsóknar spyr hvort að Samfylkingin ætli sér að breytast í Framsóknarflokkinn.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns fjármála- og efnahagsráðherra, í hlaðvarpsþætti Þjóðmála. 

Sigurður Ingi sagði aðspurður að honum þætti ólíklegt að Samfylkingin myndi fá jafn mikið fylgi í næstu Alþingiskosningum og flokkurinn er að mælast með í könnunum. Samfylkingin mældist með um 27,6% fylgi í könnun Gallup í byrjun mánaðar.

Ekki ljóst hvar Samfylkingin stendur

„Við höfum ekki enn séð hvað Samfylkingin stendur fyrir. Nýi formaðurinn, öflug kona, hefur breytt mörgum af aðaláhersluefnum Samfylkingarinnar síðustu tveggja kosninga og hent þeim til hliðar,“ segir Sigurður og nefnir sem dæmi nýja stjórnarskrá, Evrópusambandsaðild og útlendingamál.

Sigurður segir þessar breytingar hafa verið skynsamlegar en spyr þó: „Er þetta Samfylkingin?“.

Meira og minna tekið upp stefnu Framsóknar

Hann spyr einnig hverjir verða í framboði fyrir Samfylkinguna og þá hvort að þeir verði sammála nýju stefnunni.

„Við höfum horft á hana síðustu tvö ár vera meira og minna að taka upp stefnu Framsóknarflokksins. Samfylkingin er ekki Framsóknarflokkurinn, en er hún að reyna að breytast í Framsóknarflokkinn? Þá verður örugglega mjög auðvelt fyrir okkur að vinna með þeim en ég er ekki búinn að sjá það að Samfylkingin sé svo breytt,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert