Skriðuföll: Vegalokanir á Ströndum og Siglufjarðarvegi

Á kortinu má sjá hvar veginum um Tröllaskaga hefur verið …
Á kortinu má sjá hvar veginum um Tröllaskaga hefur verið lokað. Kort/Vegagerðin

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur borist tilkynning um tvær skriður á Ströndum sem lokað hafa vegi. Einnig féllu skriður á norðanverðum Vestfjörðum í dag og nokkrar minni skriður hafa fallið í grennd við Siglufjörð.

Búið er að lýsa yfir óvissustigi almannavarna á Tröllaskaga vegna úrkomu.

Klukkan 18 í dag, föstudag, hefur verið tilkynnt um grjóthrun og aurskriður utan við Suðureyri í Súgandafirði, í Tungudal innan við Ísafjörð, í Breiðadal í Önundarfirði, tvær skriður í Siglufirði, nokkrar skriður og grjóthrun á Siglufjarðavegi og tvær skriður í Árneshreppi, á veg nr. 643.

Áframhaldandi rigning í kvöld

„Það verður áframhaldandi rigning í kvöld og það ætti að draga úr úrkomunni eftir því sem líður á kvöldið og nóttina,“ segir Jón Kristján Helgason, fagstjóri skriðuvaktar Veðurstofu Íslands, og bendir á að aðvörun Veðurstofunnar um hættu á skriðuföllum og vatnavöxtum verður í gildi fram undir hádegi á morgun og jafnvel til sunnudags.

Sérstaklega úrkomusamt hefur verið á Siglufirði með 122,4 mm á síðastliðnum sólarhring.

Þótt rigningunni slotar verður viðvarandi úrkoma á Vestfjörðum, Ströndum og á Tröllaskaga. Áfram verða miklir vatnavextir og því áframhaldandi skriðuhætta.

Jón bendir á vefsíðuna umferdin.is fyrir frekari upplýsingar um vegalokanir.

Gul viðvörun er í gildi á Norðurlandi eystra, Ströndum, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum vegna úrhellisrigningar og norðan hvassviðris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert