„Það virðist nú vera að þegar þyrlan fer að skoða svæðið í seinna skiptið þá hafði gossprungan lengst um um það bil tvo kílómetra og komið svona móts austan við Litla-Skógfell,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. Sprungan er nú um sjö kílómetra löng.
Í samtali við mbl.is segir Benedikt að síðan upp úr fimm í morgun virðist hafa farið að draga úr virkni eldgossins og farið að slakna á aflögunarmerkjum.
„Það er farið að hægja á öllum merkjum. Skjálftavirkni fór líka að detta meira niður og gossprunga virðist ekki hafa lengst meira eftir það,“ segir Benedikt.
Nefnir hann að áreiðanlegri og betri upplýsingar komi í hús eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar fari og skoði svæðið nánar á ný en til stendur að það verði nú rétt fyrir hádegi.
„Eftir það fáum við betri upplýsingar en þetta er svona gróflega staðan. Þetta virðist vera að ná einhverju jafnvægi núna og þá mögulega förum við að sjá gossprunguna draga sig saman í færri afmarkaða gíga eins og þróunin hefur verið. En það verður bara að koma í ljós. Við fylgjumst með því.“
Um hraunrennslið segir Benedikt það vera talsvert til suðvesturs og sé að flæða í kringum Litla-Skógfell. Það sé þó ekki mikill hraði á því.
Vakið hefur athygli að eftir að gos hófst í gær héldu skjálftar áfram og segir Benedikt það útskýrast af meiri spennu í jarðskorpunni og þurfi því meiri vinnu fyrir kvikuna til að komast upp.
„Í upphafi þá bara opnaðist hún og þá gat kvika runnið tiltölulega viðnámslaust. En nú greinilega er meira viðnám. Það er svona líklegast skýringin á því að við sjáum svona mikla skjálftavirkni,“ segir fagstjórinn og bætir við.
„Svo var þetta náttúrulega núna að brjóta sér leið sem það hefur ekki gert síðan 11. nóvember. Kvikuhlaupið þá náði svona norðarlega en það hefur ekki hlaupið svona norðarlega síðan þá.“
Segir hann það mögulega spila inn í myndina að verið sé að brjóta nýja skorpu en að meginástæðan sé líklegast sú að nú sé meira viðnám.
„Það er búið að opna allar sprungur og jarðskorpan í kring er bara farinn að þrýsta á móti.“
Er þetta óvanalegt?
„Oftast sjáum við að kvika brýtur sér leið til yfirborðs og þegar hún er búin að því þá dettur öll virkni strax niður. Þarna tók það bara lengri tíma. En hún er að detta niður núna. Þannig að nei ekki endilega óvanalegt, þetta er bara að endurspegla ástandið í jarðskorpunni.“