Talsvert hefur dregið úr krafti gossins

Þessi mynd sýn­ir vel nýju sprung­una í vinstra horn­inu niðri …
Þessi mynd sýn­ir vel nýju sprung­una í vinstra horn­inu niðri og fyrri sprung­una með mik­illi virkni fyr­ir miðju og svo syðri hlut­ann þar sem virkn­in hef­ur minnkað. mbl.is/Eyþór

Nýja sprungan sem myndaðist nú í nótt er heldur kraftlítil og minnir helst á smá leka í endanum á fyrri sprungunni. Nokkuð hefur dregið úr krafti gossins frá því að það náði hámarki fljótlega eftir að það hófst í kvöld. Langt er í að hraun muni flæða yfir Grindavíkurveg, ef það verður raunin í þessu gosi.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands. Hann ræddi við mbl.is í kjölfar þess að hafa flogið yfir níunda gosið á Reykjanesskaga í annað skiptið nú í nótt.

Kraftlítill nýr endi

Vísindamennirnir sem fóru í flugið lentu á Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálf fjögur og Magnús segir að helstu tíðindi síðustu klukkustundir sé að gossprungan hafi lengst til norðurs um einn km. „Sá endi er nú ekki kraftmikill,“ segir Magnús Tumi. Hins vegar segir hann norður enda fyrri sprungunnar lang öflugastan, en það er svæðið norðan Stóra-Skógfells.

Gossprungurnar tvær.
Gossprungurnar tvær. mbl.is/Eyþór

Öflugasti hluti síðasta goss að deyja út

Suðurhluti fyrri sprungunnar var lang öflugastur í síðasta gosi og gosum að sögn Magnúsar Tuma, en er nú að deyja út. Þá segir hann ekkert hraun renna í áttina að Grindavík. „Þannig að Grindavík sleppur alveg í þessum atburði.“

Magnús Tumi segir lang öflugasta hrauntauminn í þetta skiptið renna til norðvesturs og að hann sé nánast búinn að umkringja Litla-Skógfell og sé búinn að renna samtals um 3 km. „Þar dreifist úr honum, en hann mun líklega fara eitthvað lengra.“

Mun líklega draga úr gosinu á næstu klukkustundum

Að sögn Magnúsar Tuma er líklegt að nokkuð muni draga úr þessu gosi á næstu klukkustundum ef því svipar til fyrri gosa. En það verði að koma í ljós þegar líður á daginn.

Hann tekur fram að gosið núna virðist á góðum stað upp á það að gera að það sé ekki nálægt neinu sem skipti miklu máli, vegum eða slíku. Þá sé enn töluvert langt í að hraunið nái Grindavíkurvegi og ekki horfur á að hraunið muni ógna veginum í bráð.

Magnús Tumi segir að hraunflæðið virðist ekki ógna innviðum í …
Magnús Tumi segir að hraunflæðið virðist ekki ógna innviðum í þetta skiptið. Þá rennur ekkert hraun í átt að Grindavík. mbl.is/Eyþór

Náði hámarki í 2.000 rúmmetrum

Magnús Tumi segir að áætla megi að hraunflæðið hafi mögulega náð hármaki fljótlega eftir að gosið hófst og að það hafi þá verið um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. Hann segir nokkuð hafa dregið úr flæðinu síðan þá og giskar hann á að það sé nær 1.000 rúmmetrum á sekúndu núna. Hann segir ekki hægt að segja að þetta gos sé stærra en síðasta gos.

Að hans sögn er ómögulegt að spá um hvað gosið muni standa yfir lengur. Vísar hann til síðustu gosa sem stóðu í nokkrar vikur. Ef gosið núna hagar sér á svipaðan hátt verður það samt fljótlega að brotabroti af því sem það var í upphafi og virknin mun færast í einn eða fleiri gíga með litlu rennsli. „Þá getur þetta haldið áfram lengi.“ Hann reiknar með að slíkur fasi yrði ekki mjög skeinuhættur fyrir innviði.

Lítill öskumökkur við Stóra-Skógfell

Á vefmyndavélum mátti í nótt sjá svartan reyk á hluta þess svæðis sem hraun hefur runnið yfir við Stóra-Skógfell. Magnús Tumi segir þetta líklega gufumökk þar sem stutt er í móberg. Þar komist hraunið í tæri við vatn og þar geti orðið tætingur á kvikunni og þá myndast mökkur eins og þessi. Segir hann þetta eins og lítinn öskumökk, en að þetta sé aðeins á litlum hluta hraunsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert