Skjálftahrinan sem hófst klukkan 20.48 í kvöld stendur enn yfir, rúmum þremur tímum eftir að eldgosið við Sundhnúkagígaröðina hófst.
Skjálfti af stærð 4,1 mældist klukkan 22.37 og er hann sá stærsti sem mælst hefur á gígaröðinni frá því 18. desember þegar fyrsta eldgosið braust út á svæðinu.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hugsanlega skýringu á því hvers vegna hrinan hefur ekki lognast út af vera þá að mesta virknin í gossprungunni er norðar en áður.
Að sögn Sigríðar hefur þó aðeins dregið úr skjálftavirkninni síðasta klukkutímann.
Hún segir sérfræðinga Veðurstofunnar enn eiga eftir að rýna í gögnin og skoða hvort þessi þróun, þ.e. að ekki hafi dregið meira úr skjálftavirkninni rúmur þremur klukkustundum eftir gos, sé óvanaleg í samanburði við fyrri gos á svæðinu.