Þurftu frá að hverfa vegna eldgossins

Ferðamennirnir voru að vonum spenntir fyrir eldgosinu.
Ferðamennirnir voru að vonum spenntir fyrir eldgosinu. mbl.is/Hermann

Þrír ástralskir ferðamenn þurftu frá að hverfa í morgun þegar þeir ætluðu að slappa af í Bláa lóninu. Eldgosið við Sundhnúkagíga sem hófst í gærkvöldi setti þar strik í reikninginn.

„Við vorum á leið í Bláa lónið í morgun og tókum eftir því að vegurinn var lokaður. Síðan sáum við reyk og hugsuðum með okkur að kannski væri þetta eldfjallið,“ sagði einn ferðamannanna, Greg, í spjalli við blaðamann við afleggjarann að Grindavíkurvegi.

Spurður hvort honum fyndist meira spennandi, að heimsækja Bláa lónið eða að sjá eldgosið sagði hann það síðarnefnda vissulega vera meira spennandi.

Áttirðu von á því að sjá eldgos?

„Við höfðum ekkert heyrt um slíkt undanfarið og bjuggumst því ekki við neinu en þegar þú ert að ferðast geta ýmsir hlutir gerst og þá verðurðu að spila með,” sagði Greg, en Ástralanir þrír eru á vikulöngu ferðalagi um Ísland þar sem helstu náttúruperlurnar verða skoðaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert