Tíðavörur eigi að vera jafn aðgengilegar og klósettpappír

Linn Rosenqvist (t.v.) og Hanna Lauste (t.h.) stofnendur Herbox með …
Linn Rosenqvist (t.v.) og Hanna Lauste (t.h.) stofnendur Herbox með bleikt eintak af kassanum. mbl.is/Anton Brink

Sænska fyrirtækið Herbox er einn stuðningsaðili Reykjavíkurmaraþonsins sem fer fram á morgun. Stofnendur fyrirtækisins segja aðgengi að tíðavörum vera jafnréttisbaráttumál.

Blaðamaður mbl.is hitti Hönnu Lauste og Linn Rosenqvist sem eru komnar til landsins til að styrkja maraþonið og til að kanna áhuga meðal fyrirtækja og stofnana á Íslandi á Herbox, tíðarvörukassa, sem skammtar notendum dömubindi eða túrtappa að kostnaðarlausu.

Fjórir slíkir kassar verða til reiðu á klósettum í grennd við maraþonið á morgun en Hanna og Linn segja aðgengi að tíðarvörum jafn mikilvægt og aðgengi að klósettpappír.

Kassinn er hannaður til þess að sporna við því að fólk taki sér meira en það þarf að hverju sinni og er því búinn tímastilli sem kemur í veg fyrir að maður geti notað hann með stuttu millibili. Er hann alfarið handknúinn og þarfnast því ekki rafhlöðu eða rafmagns almennt.

„Við erum frekar vissar um að það verði staðallinn í Evrópu innan nokkurra ára.“

Allir geti tekið þátt sama hvaða dagur mánaðar sé

„Fyrirtæki hér hafa þegar sýnt þessu mikinn áhuga og það er okkar skilningur að íslensk fyrirtæki séu mjög framsýn og áhugasöm um kynjajafnrétti,“ segir Hanna.

Fyrirtækið hefur ört frá stofnun árið 2020 og er nú með skrifstofur í bæði Svíþjóð og Hollandi og yfir 5.000 Herbox-kassa víða um heiminn. Eru viðskiptavinir allt frá smáfyrirtækjum til stofnana og stórfyrirtækja á borð við Volvo í Svíþjóð, Coca Cola, Disney og sveitarfélög.

Á þeim fjórum árum sem þær hafi rekið fyrirtækið hafi þær fundið fyrir mikilli viðhorfsbreytingu gagnvart aðgengi að tíðavörum og Herbox.

Hanna og Linn segja tíðavörur eiga að vera jafn aðgengilegar …
Hanna og Linn segja tíðavörur eiga að vera jafn aðgengilegar og klósettpappír. mbl/ Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ekki það sama og að veita starfsmönnum rakvélar

Í dag sé mun sjaldgæfara að fyrirtæki taki illa í hugmyndina um að sjá starfsfólki sínu fyrir tíðavörum. Í upphafi hafi sumum þótt hugmyndin ansi róttæk og sagt tíðavörur vera á eigin ábyrgð og jafnvel borið það saman við að bjóða starfsfólki upp á ókeypis rakvélar.

„Tíðavörur ættu að vera álitnar jafn mikilvægar og klósettpappír, það er ekki það sama og að bjóða ekki upp á rakvélar. Þú getur alveg farið í vinnuna án þess að raka þig,“ segir Hanna.

„Tölfræðin sýnir okkur líka að konur eru að fara fyrr heim úr vinnu og skóla út af blæðingum, svo yfirmenn og mannauðsfulltrúar ættu svo sannarlega að láta sig varða að þeir séu að missa vinnuframlag frá starfsfólki vegna skorts á nauðsynjavöru,“ bætir Linn við.

Hanna segir einnig mikilvægt að bjóða upp á tíðavörur á klósettum í t.d. skólum svo ungar stúlkur, sem gjarnan séu jú á viðkvæmum aldri, þurfi ekki að biðja kennara um tíðavörur heldur geti sótt sér þær sjálfar.

Stressuð að það myndi blæða í gegn á heimsmeistaramótinu

Herbox hefur stutt fjölda maraþonviðburða og íþróttaviðburða til þessa en Hanna segir hugmyndina m.a. hafa kviknað eftir að sænska skíðakonan Johanna Hagström vakti máls á því að hún hefði óvænt byrjað á blæðingum rétt áður en hún átti að taka þátt í heimsmeistaramótinu í fyrra.

Hún hafi ekki haft aðgengi að tíðarvörum með svo litlum fyrirvara og kvaðst því hafa þurft að biðja og vona að ekki myndi blæða í gegnum skíðagallann.

Mikilvægt er að sögn Linn og Hönnu að lélegt aðgengi að tíðavörum hindri ekki þátttöku kvenna í íþróttum, en þær voru til staðar á heimsmeistaramótinu í ár með Herbox til að Hagström og fleiri þyrftu ekki að örvænta ef þær skyldu byrja á túr.

„Við erum að reyna að stuðla að umhverfi þar sem allir geta tekið þátt sama hvaða dagur mánaðar er,“ segir Linn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert