Tíu manns hafa verið myrtir í níu manndrápsmálum á undanförnum 18 mánuðum.
Fimm morð voru framin á síðasta ári. Hinn 20. apríl 2023 var pólskur maður stunginn til bana í Hafnarfirði á bílastæðinu við Fjarðarkaup. Landsréttur dæmdi í júní sl. 19 ára karlmann í 12 ára fangelsi fyrir morðið. 27. apríl var konu ráðinn bani í heimahúsi á Selfossi. Rannsókn málsins stóð enn yfir í júní síðastliðnum en karlmaður er grunaður um verknaðinn.
Hinn 17. júní var maður stunginn til bana í Hafnarfirði, en meðleigjandi mannsins fékk 16 ára dóm fyrir morðið. Sjö dögum síðar lést 25 ára gamall maður eftir líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Maður á þrítugsaldri var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins.
Þá fannst maður látinn á heimili sínu í Bátavogi 21. september með fjölda áverka. Sambýliskona hans var handtekin, grunuð um verknaðinn, en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hana í tíu ára fangelsi í júlí sl. Hún hefur áfrýjað dóminum til Landsréttar.
Á þessu ári höfðu svo þrjú morðmál komið til kasta lögreglunnar áður en málið í Neskaupstað kom upp í gær. Hinn 31. janúar fannst sex ára drengur látinn á heimili sínu. Móðir drengsins er grunuð um að hafa kæft barnið með kodda og reynt að valda eldri bróður hans skaða.
Þá komu tvö morðmál upp í apríl. Manni var banað í sumarhúsi í Kiðjabergi hinn 20. apríl, og voru tveir karlmenn frá Litáen færðir í gæsluvarðhald. Þá fannst kona um fimmtugt látin í heimahúsi á Akureyri, en karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn vegna málsins.