Uggandi yfir innviðum í norðri

„Þetta er mjög forvitnileg þróun sem nú hefur orðið miðað við öll hin gosin,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðaprófessor við mbl.is um óvænta stefnu gossins sem hófst á Reykjanesskaga í gærkvöldi.

Bendir prófessorinn á að í fyrstu hafi verið búist við endurteknu efni, en er leið á nóttina hafi gosið þokast í norðurátt, þvert ofan í það sem ráð hafði verið gert fyrir. „Engin gossprunga hefur náð svona langt norður í þessum umbrotum, þegar sprungan er komin norður fyrir vatnaskil fer hraunið að renna til norðurs sem er verulegt umhugsunarefni, Reykjanesbrautin er þarna og Vogar og svo vatnsból Voga og Reykjanesbæjar,“ segir hann. Ýmislegt sé því undir.

Þorvaldur Þórðarson prófessor kveður gosið hafa tekið nýja og óvænta …
Þorvaldur Þórðarson prófessor kveður gosið hafa tekið nýja og óvænta stefnu í norðurátt. Grindavík og Bláa lóninu sé ekki hætta búin í bili en Reykjanesbraut, Vogar og vatnsból séu undir. Ljósmynd/Adam Mohamed

Skjálftinn ekki óvæntur

Aðspurður segir hann ekki hlaupið að því að skýra óvæntar vendingar nýja gossins. „Það er erfitt að segja til um það, þessi veikleiki nær nokkurn veginn frá Hagafellinu og norður í réttirnar suður af Vogunum. Í raun mátti alveg búast við því að þetta færi í þessa átt, kvikan náði að brjóta sér leið norður eftir þegar leið opnaðist fyrir hana eftir þennan stóra skjálfta,“ segir Þorvaldur og vísar til 4,2 stiga skjálfta seint í gærkvöldi.

Þorvaldur Þórðarson fór yfir gang mála í gosinu nýja og …
Þorvaldur Þórðarson fór yfir gang mála í gosinu nýja og segir að nú sé mál að huga að innviðum í norðri. mbl.is/Arnþór

Sá skjálfti hafi þó í sjálfu sér ekki verið óvæntur en með honum hafi kvikan leitað inn í nýjar rásir.

Þorvaldur segir spá sína frá því í gærkvöldi um gosið að mestu óbreytta, nú sé hins vegar tímabært að huga að innviðum. „Það dregur úr gosinu jafnt og þétt og engin dramatík í þessu. Ég reikna með að dragi úr framleiðninni í gosinu en líka má vel vera að þetta setji sig á einn gíg að lokum sem býr þá til hraun og þá þarf að fara að huga að innviðum norðan megin. Grindavík og Bláa lónið eru ekki í neinni hættu núna en hugsa þarf út í innviði í hinni áttinni,“ segir Þorvaldur Þórðarson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert