Vilja tryggja öryggi fólks á skemmtistöðum

Undirrita samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistað.
Undirrita samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistað. Ljósmynd/Aðsend

Samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði var undirritað í dag. Þetta er í fimmta sinn sem verkefnið er undirritað. Markmiðið samningsins er að skemmtistaðir í Reykjavík séu ofbeldislausir og öruggir, fyrir alla gesti og starfsfólk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Að samkomulaginu standa Reykjavíkurborg, Neyðarlínan 112, Samtök aðila í ferðaþjónustu, Samtök reykvískra skemmtistaða, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Samstarf þessara aðila miðar að því að styrkja samskipti og samvinnu til að skapa öruggara umhverfi fyrir alla sem sækja skemmtistaði.

Samkomulagið var fyrst undirritað árið 2016, en þá tóku 17 skemmtistaðir þátt. Nú eru þátttakendur orðnir 30.

Skemmtistaðirnir fá heimsókn frá lögreglu

Með samkomulaginu er lögð áhersla á að fyrirbyggja hvers kyns ofbeldi, þar á meðal kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni, vændi, mansal, og ofbeldi sem byggist á rasisma eða öðrum fordómum, svo sem gagnvart innflytjendum eða hinsegin fólki.

Til að tryggja að skemmtistaðirnir uppfylli skilyrði samkomulagsins, fer árlega teymi frá Reykjavíkurborg, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í heimsókn á staðina og meðal annars kanna hvort öryggisviðmið séu uppfyllt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur bent á að ofbeldisbrotum á skemmtistöðum sem taka þátt í samkomulaginu hefur fækkað. Betri samskipti og aukinn skilningur milli aðila samkomulagsins hefur leitt til bættrar öryggisgæslu á skemmtistöðum Reykjavíkur, að því er fram kemur í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert