Virkni á tveimur svæðum: Eldgosið í jafnvægi

Frá eldgosinu í morgun.
Frá eldgosinu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Eldgosið í Sundhnúkagígum er greinilega virkt á tveimur svæðum í norðurenda sprungunnar.

Veðurstofa Íslands hefur fengið þetta staðfest eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar flaug aftur yfir svæðið fyrr í dag.

Gosmökkur undir eins km hæð

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, nefnir að gufusprengingarnar sem hafa sést séu líklega komnar til vegna þess að hraun kemst í snertingu við grunnvatn. Afleiðingarnar eru þær að aska og gjóska myndast út frá því.

„Eins og er stafar flugumferð ekki hætta af því,“ segir Salóme Jórunn en gosmökkurinn er undir eins kílómetra hæð.

„En við vöktum þetta og erum í góðum samskiptum við flugumferðarstjórn.“

Hún telur eldgosið núna vera komið í jafnvægi sökum þess að aflögun í sprungunni mælist ekki lengur. Líkurnar á því að ný op myndist séu því mun minni núna.

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands, að búið sé að uppfæra hættumat í ljósi nýjustu gagna. „Þar er meðal annars tekið tillit til þess að engin skjálftavirkni eða aflögun hefur mælst suður af Stóra-Skógfelli. Einnig er tekið tillit til þess að ekkert hraunflæði er til suðurs. Því er helsta breytingin frá síðasta hættumati sú að hættustig fyrir svæði 4 – Grindavík – hefur verið fært niður úr rauðu í appelsínugult.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert