Tjörvi Ellert Perry er yfirsvæfingalæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Minneapolis í Minnesota í Bandaríkjunum og hefur einnig starfað hér á landi. Tjörvi segist finna greinilegan mun á starfsanda á spítölum hér á landi og vestan hafs.
„Í Bandaríkjunum upplifi ég mikla neikvæðni og svartsýni og þungt andrúmsloft. Ég hef oft hugsað um af hverju það stafi og er mjög þakklátur fyrir að hafa getað unnið hér og kynnst hinni hliðinni,“ segir Tjörvi.
„Ég upplifi mig alls ekki sem lækni á stórum spítala í Bandaríkjunum sem kemur inn á sveitaspítala á Íslandi. Það er langt því frá og ég hef lært mjög mikið á því að hafa verið hér að vinna í þennan tíma, bæði teknískt og líka það hvernig starfsfólk kemur að vinnunni sinni. Sem dæmi get ég nefnt að í Bandaríkjunum líður ekki mínúta frá því að vaktinni lýkur þangað til fólk er farið burt af vinnustaðnum.
Hér er svo þægilegt andrúmsloft og augljóst að fólk er jákvætt með að vera í vinnunni. Eftir vaktina stoppar fólk gjarnan og spjallar við samstarfsfólkið í svolítinn tíma, ýmist um sjúklinga eða stjórnmál eða bara daginn og veginn. Það þykir mér merki um að fólki líði vel á vinnustaðnum og þar hef ég mjög skýran samanburð. Samstarfsfólk hér er jafnvel að hittast utan vinnutíma en það gerist sjaldan úti.“
Viðtal Sólveigar Baldursdóttur við Tjörva má lesa í heild í Sunnudagsblaðinu.