Bóksali ósáttur við skipuleggjendur Menningarnætur

„Þetta er orðið svolítið skrítið. Hún er komin smá í …
„Þetta er orðið svolítið skrítið. Hún er komin smá í andhverfu sína þessi hátíð þegar hún leggur undir sig svona svæði og truflar starfsemi borgarinnar,“ segir Ari Gísli Bragason fornbókasali. Facebook/Bókin

Eig­andi forn­bóka­búðar­inn­ar við Hverf­is­götu er ósátt­ur með fram­göngu Reykja­vík­ur­borg­ar og skipu­leggj­enda Menn­ing­ar­næt­ur. Versl­un­in er lokuð í dag þar sem viðburðar­hald í borg­inni hef­ur skert aðgengi að búðinni.

Til stóð að halda ljóðaupplestur í fornbókabúðinni í dag en honum hefur verið frestað þar sem búðin verður lokuð. Ástæðan er sú að í gær kom í ljós að viðburðarhaldarar Menningarnætur hefðu lagt hluta af Klapparstíg undir sig, þar á meðal pallinn þar sem gengið er inn í fornbókabúðina.

„Þetta er orðið svolítið skrítið. Hún er komin smá í andhverfu sína þessi hátíð þegar hún leggur undir sig svona svæði og truflar starfsemi borgarinnar,“ segir Ari Gísli Bragason, fornbókasali og eigandi fornbókabúðarinnar Bókarinnar, í samtali við mbl.is.

Ætluðu að halda ljóðaupplestra

„Það var komið á planið að vera með upplestra þarna úr nýútgefnum ljóðabókum. En við slógum þetta af þegar það stefndi í að verða eins og þetta er búið að vera [síðustu ár],“ segir Ari enn fremur.

Hann segir ekkert samráð hafa verið haft við rekstraraðila á svæðinu. „Það koma bara einhverjir menn og loka götunni og leggja undir sig pallinn sem við erum með við búðina.“

Ari er sjálfur erlendis en segir að starfsmaður verslunarinnar hafi upplýst sig um stöðu mála í gær. Fornbókasalinn segist áður hafa þurft að loka fyrr um Menningarnótt þar sem hávaðinn væri oft of mikill á svæðinu. 

Margeir biður Ara afsökunar

Ari birti færslu á Facebook-síðu Bókarinnar í nótt þar sem hann lýsti vonbrigðum sínum yfir stöðunni. Lastaði hann þar sérstaklega Reykjavíkurborg, Icelandair og DJ Margeir, sem stendur fyrir jóga-viðburði á Klapparstíg kl. 14:30. 

Margeir hefur nú beðið Ara afsökunar og kveðst munu sjá til þess að þetta komi ekki fyrir aftur.

Afsakaðu þetta rask, enn enn og aftur. Mér þykir þetta afskaplega leiðinlegt,“ skrifaði plötusnúðurinn í athugasemd undir færslu í nafni bóksölunnar. Margeir segist hafa lagt sig fram við að halda góðu samstarfi við alla nágranna.

Aðspurður segist Ari sáttur með afsökunarbeiðni Margeirs og honum þyki samt enn leitt að svo hafi farið sem fór. Það er þó alltaf næsta ár.

„Við verðum með viðburði á næsta ári og höldum þá bara hvort sem það verður í hávaða eða hljóði, það verður bara gaman að skipuleggja það,“ segir Ari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert