Engin verkefni virðast vera hinum vösku íslensku björgunarsveitarmönnum ofviða. Ef einhvern tíma þyrfti nauðsynlega að finna nál í heystakki, eins og í máltækinu sem svo mikið er notað, þá myndu íslensku björgunarsveitirnar líklega ráða fram úr því.
Hér í blaðinu á fimmtudag var sagt frá hremmingum sem myndlistarmaðurinn Tolli Morthens lenti í ásamt ljósmyndara blaðsins, Árna Sæberg.
Höfuðskepnurnar sáu þá til þess að óþornað málverk Tolla fauk út úr bifreið þeirra á Landmannaleið og út í náttúruna. Málverkið er nú komið í leitirnar.
Eftir að Morgunblaðinu var dreift um morguninn fékk Árni Sæberg símtal frá Hákoni Erni Árnasyni hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi sem tjáði Árna að þau hefðu ómerkt málverk undir höndum en væri nú ljóst eftir fréttaflutninginn í eigu hvers verkið væri.
„Við tókum að okkur að sinna viku í hálendisgæslu og viðbragðsvakt sem sveitirnar á landinu skipta á milli sín. Félagar mínir voru á Dómadalsleið, og voru nýfarnir fram hjá afleggjaranum, en eitthvað sem þeir sáu úti í skurði vakti athygli þeirra.
Þeir stoppuðu og áttuðu sig ekki á því hvað þetta gæti verið. Þá lá málverkið þar og snéri málningin niður í jörðina. Þeir urðu auðvitað mjög undrandi þegar þeir áttuðu sig á því að þarna væri málverk úti í náttúrunni. Þeir tóku verkið með inn í Landmannalaugar,“ segir Hákon.
Í Landmannalaugum var brúðkaup um síðustu helgi og björgunarsveitarmenn hugsuðu með sér að mögulega hefði málverkið átt að vera brúðargjöf.
Myndin var ómerkt enda átti Tolli eftir að ganga frá verkinu eftir að hafa málað það úti í náttúrunni. Myndin er þó furðu vel farin miðað við aðstæður.
„Á fimmtudagsmorguninn rákum við augun í fréttina hjá Morgunblaðinu og sáum að málverkið væri eftir Tolla og hefði fokið út í veður og vind eins og sagt var.Þá hugsaði maður með sér: „Jæja. Við erum með málverk frá Tolla úti í bíl. Við ættum kannski að gera eitthvað í málinu.“ Við erum málkunnugir Árna og ég heyrði í honum. Úr varð hin skemmtilegasta saga og nú fer málverkið sína leið,“ segir Hákon.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.