Hraunflæði að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast

Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast.
Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast. mbl.is/Árni Sæberg

Hraun frá eldgosinu á Reykjanesskaga flæðir að mestu til norðvesturs og virðist ekki fara hratt. Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. 

Fram kemur að eldgosið virðist hafa náð jafnvægi í gærkvöldi og virknin hafi verið nokkuð stöðug í alla nótt. Hún sé öll norðan við Stóra Skógfell.

„Virknin er bundin tvö staði á nyrðri sprungunni sem opnaðist í fyrrinótt. Myndarlegir kvikustrókar eru enn sjáanlegir en miðað við sjónmat þá virðast strókarnir hafa minnkað frá því í gærkvöldi,“ segir í tilkynningunni.

Gasmengun berist til suðurs

Þá segir að jarðskjálftavirkni sé mjög lítil, einstaka skjálftar hafi mælst norður af Stóra-Skógfelli og við Fagradalsfjall. Engin virkni mælist syðst, nálægt Hagafelli eða Grindavík.

Áfram er spáð norðanátt og gerir spá veðurvaktar um gasmengun ráð fyrir að hún muni berast til suðurs yfir Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert