Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði 17 ára ökumann í Kópavogi þar sem hann ók á 149 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Dagbókin nær til verkefna lögreglu frá klukkan 17 í gær til 05 í morgun.
Lögregla sinnti einnig verkefni í Kópavogi þar sem skemmdir urðu á íbúð sökum reyks eftir að íbúi gleymdi að slökkva undir potti sem var á eldavél. Enginn var í íbúðinni og kom slökkvilið á vettvang og reykræsti íbúðina.
Þá var lögreglu tilkynnt um mál þar sem eigandi bifreiðar kom að manni sem hafði brotist inn í bifreiðina og var að róta í lausamunum. Þjófurinn reyndi að komast á brott en eigandinn náði að yfirbuga manninn og hélt honum þar til lögregla kom á staðinn og handtók hann. Það var lögreglustöð eitt sem kom að málinu, en hún sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi.
Lögreglumenn sömu stöðvar stöðvuðu sex ökumenn vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs. Þá ók ölvaður einstaklingur á rafmagnshlaupahjóli á bifreið í miðbænum og á hann von á sekt.
Í hverfi 109 var einn ökumaður stöðvaður undir áhrifum fíkniefna. Hann reyndist einnig án ökuréttinda.